Reykjavíkurborg hefur bannað Kiwanishreyfingunni að gefa börnum reiðhjólahjálma merktum Eimskipafélaginu. Merking hjálmanna stangast á við reglur borgarinnar sem kveða á um að ekki megi afhenda grunnskólabörnum gjafir á skólatíma séu á gjöfunum merkingar. Fyrrverandi stjórnarmaður í hjálmanefnd Kiwanis á Íslandi furðar sig á málinu.
„Okkur var bannað að koma í skólana og afhenda þetta á skólatíma. Í einhverjum tilvikum var tekið við kössunum af skólastjórnendum og hjálmarnir teknir úr kössunum og afhendir börnunum en kössunum og öðru sem í þeim var tekið og hent, af því að það var merkt Eimskipum,“ segir Ólafur Jónsson, sem setið hefur í hjálmanefnd síðustu ár.
Sjá einnig: Börn í Reykjavík mega ekki fá tannbursta
Eimskip hefur gefið árlega um fjögur þúsund hjálma í verkefni Kiwanis sem eru svo gefnir öllum grunnskólabörnum í fyrsta bekk. Það er enn gert utan höfuðborgarsvæðisins.Eimskip hefur gefið hjálma til verkefnisins síðan árið 2003 en verkefnið sjálft hófst á Akureyri fyrir 25 árum síðan.
Auk hjálmanna hefur börnunum verið gefið buff og bolti, sem einnig eru merktir Eimskipum. Ólafur segist ekki skilja bannið. „Maður skilur ekki sjónarmiðið á bakvið þetta,“ segir hann og bætir við að mikilvægt sé að geta gefið börnunum hjálmana áður en þau fara út í umferðina á vorin. „Við förum fram með þetta sem öryggismál.“
Grunnskólabörn í Reykjavík mega ekki fá hjálma merkta Eimskipafélaginu

Tengdar fréttir

Börn í Reykjavík mega ekki fá tannbursta
Tannverndarvika hefst í febrúar og fá öll börn, utan höfuðborgarsvæðisins, tannbursta, tannkrem og tannþráð að gjöf.