Erlent

COP21: Ísland til liðs við ríki sem krefjast metnaðarfulls loftslagssamnings

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Sendinefnd Íslands á loftslagsráðstefnunni í París hefur tekið höndum saman við rúmlega hundrað aðrar þjóðir sem krefjast metnaðarfulls loftslagssamnings. Samningaviðræður hafa að mestu legið niðri eftir stranga samningalotu síðustu nótt.

Upphaflega átti nýr loftslagssamningur að liggja fyrir í dag en Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands og forseti loftslagsráðstefnunnar, vonast til að samningurinn verði kynntur á morgun.

Lítið hefur þokast varðandi helstu deilumál og enn er deilt um metnað og markmið nýs loftslagssamnings, eftirfylgni hans og fjármögnun.

Ísland, ásamt nokkrum öðrum þjóðum, gekk í dag til liðs við bandalag rúmlega hundrað þjóða sem þrýsta á um metnaðarfullt samkomulag. Eitt af meginmarkmiðum þessa bandalags er að tryggja að markmið ríkjanna 195 verði endurskoðuð með reglulegu milli, enda er þörf á að skerpa á markmiðum vilji menn forðast stórfelldar loftslagsbreytingar.

Bandalagið fer einnig fram á að ákvæði um að halda hlýnun jarðar undir1,5 gráðum verði að finna í nýjum samningi.

Í bandalaginu eru bæði þróuð ríki og þróunarríki, en með því vilja ríkin sýna að breiður hópur ríkja með ólíkar aðstæður séu sammála um að tryggja metnað í Parísarsamkomulaginu. Vonast er til að ný samningsdrög verði kynnt á morgun.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir samningaviðræðurnar hafa verið þær flóknustu, en jafnframt þær mikilvægustu, sem hann hafi komið að.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×