Innlent

Játning liggur fyrir í hrottalega ráninu í Gullsmiðjunni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
26 ára karlmaður hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 1. janúar grunaður um að hafa skipulagt rán í skartgripaversluninni Gullsmiðjunni í Hafnarfirði 22. október síðastliðinn. Hann var handtekinn að kvöldi sama dags eftir að hafa skotið að lögreglumönnum sem höfðu uppi á honum í Keflavík.

Maðurinn neitaði sök í málinu allt þar til í skýrslutöku þann 30. nóvember þegar hann játaði aðild sína í málinu. Var hann einn tveggja sem fóru inn í Gullsmiðjuna og er manninum gefið að sök að hafa ógnað starfsmanni, konu á sextugsaldri með öxi.

Flóttaleið mannanna frá Hafnarfirði og að Grindavíkurafleggjara.Kort/Loftmyndir.is
Konan komst undan á hlaupum. Lögreglan í Hafnarfirði lýsti ráninu sem hrottafengnu en mennirnir óku í burtu með ránsfeng sinn í hvítum Nissan jepplingi á ofsahraða. Hinn maðurinn hefur einnig játað aðild sína að málinu.

Bíllinn var skilinn eftir við Grindavíkurafleggjara þar sem þriðji maður beið. Hinn 26 ára ku hafa verið í skuld við þriðja manninn og ætlað að nota ránsfenginn til að greiða upp skuld að því er fram hefur komið í skýrslutökum. Aðeins lítill hluti þýfisins hefur fundist.

Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 23. október, fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna en frá 6. nóvember með tilliti til almannahagsmuna. Talið er nauðsynlegt að hann gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar. Féllst héraðsdómur á þessi rök lögreglu og sömuleiðis Hæstiréttur. Verður hann því í gæsluvarðhaldi út árið og einum degi betur. Dóm Hæstaréttar má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×