Erlent

Tyrkir segjast ekki hafa vitað að þotan væri rússnesk

Atli Ísleifsson skrifar
Flugvélin kom niður á yfirráðasvæði uppreisnarmanna og var flugmaðurinn á flótta í tólf tíma.
Flugvélin kom niður á yfirráðasvæði uppreisnarmanna og var flugmaðurinn á flótta í tólf tíma. Vísir/EPA
Tyrkneski flugherinn vissi ekki að orrustuþotan sem skotin var niður á mánudagsmorgun hafi verið rússnesk. AFP hefur þetta eftir talsmanni tyrkneskra yfirvalda.

Í yfirlýsingu frá Tyrklandsher segir að samband hafi verið haft við Rússlandsher í kjölfar atviksins þar sem Tyrkir segjast reiðubúnir í samstarf með Rússum.

Í yfirlýsingunni kemur jafnframt fram að Tyrklandsher hafi gripið til ýmissa aðgerða í tilraunum sínum að finna og bjarga þeim flugmönnum sem flugu þotunni, sem skotin var niður á landamærum Sýrlands og Tyrklands.

Annar flugmanna rússnesku þotunnar komst lífs af og segir hann að Tyrkir hafi ekki varað þá við áður en þotan var skotin niður. Tyrkir hafna þessu og segja að tíu viðvaranir hafi verið sendar eftir að þotan var sögð hafa rofið tyrkneska lofthelgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×