Innlent

Forsætisráðherra segir þurfa að meta tækjabúnað lögreglu hér á landi í kjölfar hryðjuverkaárása

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar

„Við getum ekki leyft okkur að líta framhjá þessu,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 af heimili sínu spurður um hvort hryðjuverkin í París hefðu breytingar í för með sér fyrir löggæslu hér á landi. Hann fundaði í dag ásamt Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra og Ólöfu Nordal innanríkisráðherra til þess að fara yfir varnarmál hér á landi.

„Ljóst er að í nágrannalöndunum líta menn svo á að það sé raunveruleg ógn yfirvofandi. Að þetta gæti verið upphafið af einhverju sem getur varað árum eða áratugum saman; að við horfum í raun fram á breytta heimsmynd. Þó þurfum við að laga okkur að því að aðstæður á Íslandi séu um margt ólíkar því sem er í nágrannalöndunum.“

Sigmundur Davíð gat ekki staðfest að breytingar yrðu á löggæslu eða varnarmálum hér á landi og þá ekki hverjar þær breytingar gætu verið. „Við þurfum að fylgjast með því hvort þurfi að gera breytingar. Við erum að skoða hvort þetta kalli á breytingar af okkar hálfu.“

Forsætisráðherrann ítrekaði að mikilvægt væri að halda góðu sambandi við nágrannalönd okkar.

„Það þarf að kanna hvort lögreglan á Íslandi meti það sem svo að hún hafi þau tæki og úrræði sem hún þarf við þessar aðstæður.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.