Innlent

Mun meiri afgangur af ríkisrekstri

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá kynningu fjárlaganna 2015 í fyrra.
Frá kynningu fjárlaganna 2015 í fyrra. Vísir/GVA
Útlit er fyrir að afkoma ríkissjóðs verði mun betri en gert var fyrir í fjárlagafrumvarpinu fyrir fjárlög 2015. Í frumvarpi til fjáraukalaga sem birt var á vef Alþingis í gær er gert ráð fyrir að afgangur af ríkisrekstri aukist um 17,1 milljarð króna. Stærstur hluti þess er vegna um 15 milljarða hærri arðgreiðslum frá fjármálastofnunum.

Þessi greiðsla kemur að mestu frá Landsbanka Íslands. Án áðurnefndra arðgreiðslna er gert ráð fyrir að niðurstaða fjáraukafrumvarpsins sé svipuð og í fjárlögum. Hins vegar eru miklar veltubreytingar og innbyrðis breytingar á milli ýmissa stærða, bæði á tekju- og útgjaldahliðinni.

Heildartekjur ríkissjóðs munu, samkvæmt frumvarpinu, hækka um 26,4 milljarða frá fjárlögum og útgjöld um 9,4 milljarða.

Greiða niður skuldir

Miðað við frumvarpið er talið að ríkissjóður ætli að greiða niður skuldir um 141,6 milljarð króna, sem er 101,4 milljörðum meira en gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga.

Þá er ein stærsta breytingin í frumvarpinu frá fjárlögum endurmat á áætlun um vaxtagjöldum ríkissjóðs. Áætlað er að vaxtagjöldin verði 76,8 milljarðar og lækki um 5,7 milljarða frá fjárlögum. Mesta lækkunina má rekja til lægri vaxtagjalda af innlendum lánum. Það er til komið vegna lægra vaxtastigs á árinu en gert var ráð fyrir við gerð fjárlaga.

Í frumvarpinu er ekki tekið tillit til hugsanleg fjárhagsáhrif á ríkissjóð í tengslum við losun fjármagnshafta. Líklegra þykir að þau muni hafa áhrif á fjárlagafrumvarp næsta árs.

„Slitabú föllnu bankanna hafa samþykkt að greiða stöðugleikaframlög á yfirstandandi ári til að geta gengið til nauðasamninga. Gangi það eftir þurfa þau ekki að greiða 39% stöðugleikaskatt á næsta ári.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×