Innlent

Rjómi ekki til landsins

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn vildi Rjóma hingað til lands á þeim forsendum að hann tengdist sér og fjölskyldu sinni tilfinningaböndum.
Maðurinn vildi Rjóma hingað til lands á þeim forsendum að hann tengdist sér og fjölskyldu sinni tilfinningaböndum.
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í morgun Matvælastofnun og íslenska ríkið af kröfum karlmanns sem vildi flytja hund sinn, Rjóma, til Íslands. Maðurinn hefur verið búsettur í Noregi um nokkurra ára skeið en hugðist flytjast búferlum ásamt fjölskyldu sinni til Íslands.

Rjómi er af tegundinni English Bull Terrier sem hefur verið bönnuð hér á landi frá árinu 2004. Og hefur öllum umsóknum um innflutning á hundum af þessari tegund verið hafnað síðan þá. Er það að sögn Matvælastofnunar meðal annars vegna þess að Bull Terrier hundar og Pit Bull Terrier hundar eiga sér sameiginlega forfeður sem notaðir hafi verið við bjarna- og nautaat og seinna hundaat í Bretlandi. Lagt hafi verið upp úr snerpu og árásarhneigð gagnvart öðrum dýrum og undirgefnu gagnvart eigandanum. Þeir hafi sterkt elti- og veiðieðli, sérstaklega gagnvart köttum og öðrum dýrum á flótta.

Manninum var gefin kostur á að andmæla þessum orðum Matvælastofnunar, sem hann og gerði, og sagði hundinn tengjast sér og fjölskyldu sinni tilfinningaböndum. Jafna megi tengslunum við hefðbundin fjölskyldutengsl.

Í dómsorði segir að stjórnvöld hafi markað þá stefnu innan heimilda laganna að veita ekki undanþágu til innflutnings á hundum af þessari tegund. Skyldleiki tegundarinnar á Pit Bull Terrier hundum sé næg ástæða til að leyfa ekki innflutning til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×