Innlent

Lögregla skoðar ábendingar spámiðla líkt og aðrar

Bjarki Ármannsson og Ólöf Skaftadóttir skrifa
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er ekki með neina miðla á sínum snærum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er ekki með neina miðla á sínum snærum. Vísir/Getty
Lögregla þiggur með þökkum upplýsingar frá spámiðlum við rannsókn mála en þær upplýsingar eru skoðaðar með tilliti til annarra gagna, rétt eins og allar aðrar upplýsingar. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er ekki með neina miðla á sínum snærum.

Þetta kemur fram í svari Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, við fyrirspurn fréttastofu um samband lögreglu og spámiðla. Anna Birta Lionaki, sem vakti mikla athygli í vikunni fyrir skyggnilýsingakvöld sitt og viðtal um það í Íslandi í dag, birti á Facebook-síðu sinni á miðvikudag langa færslu um hvað felst í því að vera miðill og sagði þar meðal annars að henni þætti merkilegt hve lítið væri talað um vinnu miðla í lögreglumálum.

Anna Birta Lionaki telur merkilegt hve lítið er fjallað um vinnu miðla í lögreglumálum.
„Lögreglan þiggur alla þá aðstoð sem henni býðst, en það kemur sannarlega fyrir að miðlar bjóða fram upplýsingar í ákveðnum tilvikum, til dæmis þegar leitað er að týndu fólki,“ segir í svari Sigríðar Bjarkar. „Í slíkum tilvikum eru upplýsingarnar skoðaðar með tilliti til annarra gagna, rétt eins og allar aðrar upplýsingar sem berast. Þannig erum við ekki með miðla á okkar snærum, en þiggjum með þökkum upplýsingar frá þeim þegar það á við.“

Lögreglu víða um heim berast reglulega ábendingar um hin og þessi mál frá fólki sem heldur því fram að það búi yfir yfirnáttúrulegum kröftum. Oftast kannar lögregla sannleiksgildi þeirra ábendinga, til að mynda fylgdi lögregla í Portúgal eftir ýmsum ábendingum varðandi hvarf bresku stúlkunnar Madeleine McCann frá fólki sem taldi sig hafa upplýsingar um afdrif hennar að handan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×