Erlent

Leiðtogar Kína og Taívans á sögulegum fundi um helgina

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ma Ying-jeou og Xi Jinping, forsetar Taívans og Kína, á stuttum, sögulegum fundi um helgina.
Ma Ying-jeou og Xi Jinping, forsetar Taívans og Kína, á stuttum, sögulegum fundi um helgina. Nordicphotos/AFP
Xi Jinping, forseti Kína, skrapp til Taívans á laugardaginn og spjallaði í um klukkustund við Ma Ying-jeou, forseta Taívans.

Þetta þótti afar sögulegur fundur þar sem leiðtogi Kína hefur aldrei áður farið til Taívans, hvað þá átt í viðræðum við þjóðarleiðtogann þar.

Kína viðurkennir ekki sjálfstæði Taívans, heldur lítur á eyjuna sem hérað í Kína. Taívan hefur hins vegar haft sjálfstæða ríkisstjórn allar götur frá árinu 1949 þegar Mao Tse Tung og félagar hans gerðu byltingu og stofnuðu kommúnistaríki í Kína.

Chang Kai-shek, þáverandi leiðtogi Kína, flúði til Taívans ásamt stjórn sinni og viðurkenndi aldrei kommúnistastjórnina á meginlandinu.

Stjórnin í Taívan viðurkennir því enn ekki Kínastjórn, ekki frekar en Kínastjórn viðurkennir Taívansstjórn.

Samskipti ríkjanna hafa þó eitthvað verið að skána á síðustu árum. Viðskiptasamningur hefur verið gerður og íbúum beggja landa er að mestu frjálst að ferðast á milli.

Ma Taívansforseti og flokkur hans, Kuomintang, riðu ekki feitum hesti frá sveitarstjórnarkosningum á síðasta ári. Þar er helst um kennt ótta íbúa Taívans við að Kína komi til með að notfæra sér þessi auknu samskipti ríkjanna til þess að hafa áhrif á stjórnarhætti í Taívan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×