Innlent

Illugi Gunnarsson: Telur RÚV taka of stórt pláss á auglýsingarmarkaði

Viktoría Hermannsdóttir og Ólöf Skaftadóttir skrifa
„Tilraunin með ohf.-fyrirbærinu er sú að reyna líkja eftir því fyrirkomulagi sem er á einkamarkaði. Ríkisútvarpið á ekki að reyna líkja eftir því. Það á ekki að reyna lúta þeim lögmálum sem rekstur annarra fjölmiðla lýtur,“ segir Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. Þetta var meðal þess sem fram kom í Föstudagsviðtali Fréttablaðsins. Þar ræddi Illugi meðal annars tengsl sín við Orku Energy og samskiptin við fjölmiðla. Viðtalið má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

Hann minnist á deilur um skipan stjórnar RÚV eftir síðustu kosningar.

„Það stóð til að breyta því hvernig stjórnin yrði skipuð. Hagsmunasamtök úti í bæ áttu að eiga fulltrúa í stjórn og annað slíkt. Ég var þeirrar skoðunar að eini aðilinn sem ætti að skipa fólk í þá stjórn væri Alþingi. Ábyrgðin væri stjórnmálamannanna. Og þeir væru kosnir og hefðu ábyrgð gagnvart kjósendum, fólkinu sem borgar þetta með skylduáskrift.“

Illugi segir að RÚV eigi ekki að vera í samkeppni við aðra miðla á auglýsingamarkaði. „Það er vaxandi vandamál. Það sem er að gerast á fjölmiðlamarkaðinum er að dreifing á efni er að verða önnur en hún var. Sjáið fyrirbæri eins og Netflix sem er að koma á markaðinn. Ég spái því að stóru breytingarnar verði þegar fyrirbæri eins og Facebook og Google fara að verða efnisveitur af alvöru. Þá held ég að það muni þróast þannig að það verði komið framboð af efni sem er miklu meira en við þekkjum í dag. Þá er spurning hver verði staða Ríkisútvarpsins í því samhengi. Ég held að það sé miklu stærri spurning sem við verðum að fást við og ræða heldur en kannski akkúrat hvort framlagið til RÚV sé þessum milljónum hærra eða lægra.“

Kaup á erlendu efni dragist saman

Hann segist þó þeirrar skoðunar að enn sé þörf á almannaútvarpi og -sjónvarpi, einkum útvarpi.

„Ég held að þessi þróun muni hafa þau áhrif að kaup Ríkisútvarpsins á til dæmis erlendu afþreyingarefni hljóta að dragast fljótt saman. Ég get ekki ímyndað mér að það geti verið hlutverk Ríkisútvarpsins að bjóða upp á slíkt. Það er augljóst hvað mun gerast, línulegt áhorf svokallað, þar sem fólk sest niður þegar það ætlar að horfa á eitthvað, fer minnkandi og mun fara hratt minnkandi á næstu árum.“ Hann heldur áfram: „Þá finnst mér að Ríkisútvarpið eigi að sinna frekar því hlutverki að búa til íslenskt efni. Það er kjarnahlutverk Ríkisútvarps.“

Hann segir að einnig megi velta fyrir sér fréttastofunni. „Það má benda á að magn af fréttum í dag er margfalt meira en var fyrir örfáum árum. Aðgengi okkar að erlendum fréttamiðlum er allt annað og meira en áður var. Eins líka möguleikar til þess að koma á framfæri skoðunum, eru orðnir aðrir en var hér þegar eina leiðin var í gegnum Ríkisútvarpið og flokksmálgögn. Nú geta allir komið sínum skoðunum fram með margvíslegum hætti. Ég held að þessar breytingar séu það sem við þurfum að ræða.“

Hann segir alltaf hafa verið miklar pólitískar deilur um RÚV. „En ég ætla að leyfa mér að hafa þá von í brjósti að við getum rætt um framtíðina án þess að lenda strax í skotgröfum.“

Telur að RÚV eigi ekki að vera í samkeppni við einkaaðila

Illugi segir RÚV taka of mikið pláss á auglýsingamarkaði.

„Dagskrárgerðin endurspeglar það. Að menn séu að horfa eftir áhorfinu til þess að geta náð sér í auglýsingatekjurnar. Á síðasta kjörtímabili horfði maður á hlutfall auglýsingatekna og síðan ríkisframlagsins, hlutfall auglýsingatekna hækkaði töluvert. Það er ekki jákvætt. Spurningin sem menn standa frammi fyrir er hvort fólk sé tilbúið til að halda RÚV í sama umfangi, en taka það út af auglýsingamarkaði. Bæta við frá skattgreiðendum, því sem munar. Geta menn séð fyrir sér að RÚV þyrfti að færa rekstur sinn niður í bara ríkisframlagið? Ég vil gjarnan sjá þá þróun.“

Hann segist vilja sjá minna af rekstrarfé RÚV koma frá auglýsingum. „Ég held að við hljótum öll að geta verið sammála um það. Ég tel að RÚV eigi ekki að vera í samkeppni við einkaaðila um efni.“

Breytist mikið á næstu árum?

„Við skulum bíða niðurstöðu nefndar sem sett var á laggirnar í vor og er að skoða rekstur og rekstrar­umhverfi RÚV. Þar mun væntanlega koma fram einhver mynd á það hvernig við höfum komist á þennan stað sem við erum á í dag í rekstrinum. Ég held að í framhaldinu þurfum við að efna til þessa samtals um hvert við viljum stefna.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.