Erlent

Bandarískir hermenn í Kamerún

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn nokkurra ríkja hafa barist gegn Boko Haram um nokkurt skeið.
Hermenn nokkurra ríkja hafa barist gegn Boko Haram um nokkurt skeið. Vísir/EPA
Bandaríkin munu senda 300 hermenn til Kamrún. Þeim er ætlað að hjálpa til í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum Boko Haram. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti þinginu þetta í gær. Hann sagði að 90 hermenn hefðu verið sendir til Afríku á mánudaginn og að hermennirnir yrðu í Kamerún svo lengi sem þeir þyrftu að vera þar.

Markmið þeirra er að safna upplýsingum á ýmsan máta sem hermenn Afríkubandalagsins geti notað í gegn samtökunum. Samtökin hafa nú staðið gegn sókn herja frá Kamerún, Tjad, Níger og Nígeríu um nokkurt skeið.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hermenn Bandaríkjanna eru sendir á svæðið, en þegar vígamenn Boko Haram rændu 200 skólastúlkum í fyrra voru hermenn og flugvélar sendir til Afríku til að hjálpa við leitina.

Talsmaður Obama sagði fjölmiðlum ytra að aðgerðin væri einungis ein af mörgum í breiðri áætlun til að stöðva útbreiðslu öfgasamtaka eins og Boko Haram í Vestur-Afríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×