Erlent

Meinaður aðgangur að gömlu Jerúsalem

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglumenn standa vörð í gömlu borginni í Jerúsalem.
Lögreglumenn standa vörð í gömlu borginni í Jerúsalem. Vísir/AFP
Ísraelskir lögreglumenn meina nú Palestínumönnum aðgang að gömlu borginni í Jerúsalem, þar sem tvær hnífaárásir voru gerðar á skömmum tíma. Palestínskur táningur stakk 15 ára ísraelskan táning í morgun, en hann var svo skotinn til bana af lögreglu. Í gær myrti 19 ára Palestínumaður tvo menn og særði konu og barn alvarlega áður en hann var skotinn til bana af lögreglu.

Spenna er nú gífurlega mikil vegna gömlu borgarinnar sem bæði gyðingar og múslímar telja heilaga. Lögreglan segist ætla að halda svæðinu lokuðu í tvo daga á meðan hátíð gyðinga gengur yfir. Palestínumenn sem búa eða vinna fá að fara inn í gömlu borgina, sem og Ísraelar og ferðamenn.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segist ætla að ræða við embættismenn í dag um „sterka sókn“ gegn því sem hann lýsir sem „ógn Palestínumanna“.

Á Vesturbakkanum skutu ísraelskir hermenn á hóp Palestínumanna þegar til átaka kom í flóttamannabúðunum í Jenin. Forsvarsmaður nærliggjandi sjúkrahúss segir að hermennirnir hafi sært minnst 18 manns og þar af tvo alvarlega.

Til átakanna kom þegar hermenn höfðu umkringt heimili manns sem þeir grunuðu um að vera hryðjuverkamaður. Herinn segir að nokkrir tugir manna hafi ráðist að hermönnunum og kastað rörasprengjum að þeim.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×