Fjórir einstaklingar sitja nú í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Tveir þeirra eru Íslendingar og tveir Hollendingar og eru þeir á þrítugs og fertugsaldri.

Þrír einstaklinganna voru úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald og einn þeirra í viku. Hæstiréttur hefur staðfest alla úrskurðina.
Þetta er þriðja stóra fíkniefnamálið sem komið hefur upp á Íslandi á stuttum tíma. Tollverðir á Seyðisfirði fundu 80 kílógrömm af MDMA í húsbíl sem kom einnig með Norrænu til Seyðisfjarðar í byrjun september síðastliðins. Fundust efnin í niðursuðudósum, varadekki bifreiðarinnar sem þau grunuðu voru á og tveimur gaskútum. Hollenskt par situr nú í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Bæði málin eru með stærstu fíkniefnamálum sem komið hafa upp hér á landi. Þá voru hollenskar mæðgur stöðvaðar með tæplega tuttugu kíló af fíkniefnum í Leifsstöð um páskana.
„Það er mikið áhyggjuefni hversu mikið magn virðist flæða hér inn í landið en að sama skapi ánægjulegt að vita að lögregla og tollur séu að ná árangri í að hindra flæðið að einhverju leyti,“ segir Aldís.
Uppfært klukkan 12:36
Mennirnir voru úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald en ekki þriggja eins og stóð í fyrstu útgáfu fréttarinnar.