Innlent

Erla Stefánsdóttir látin

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Erla Stefánsdóttir starfaði sem píanókennari auk þess sem hún stofnaði félagsskapinn Lífssýn.
Erla Stefánsdóttir starfaði sem píanókennari auk þess sem hún stofnaði félagsskapinn Lífssýn. vísir/vilhelm

Erla Stefánsdóttir, píanókennari og sjáandi, lést í gær, áttræð að aldri. Hún fæddist þann 6. september 1935 og var einkadóttir og kjördóttir foreldra sinna Salome Pálmadóttur hjúkrunarkonu frá Skálavík og Stefáns Jónssonar prentsmiðjustjóra frá Kambi í Reykhólasveit.

Árið 1960 giftist Erla Erni Guðmundssyni tannlækni og eignuðust þau þrjú börn en skildu síðar. Börn Erlu og Arnar eru þau Salóme Ásta, Sigþrúður Erla og Stefán Örn. Þá eignaðist Erla níu barnabörn.

Erla ólst upp í Reykjavík og gekk í Miðbæjarbarnaskólann og síðan Kvennaskólann í Reykjavík. Hún stundaði nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík og Kennaraskóla Íslands og lauk söngkennaraprófi. Erla starfaði lengst af sem píanókennari heima við, í Tónmenntaskólanum í Reykjavík og í Tónlistarskólanum í Kópavogi.

Erla sá heiminn alla tíð í sínu sérstaka ljósi. Hún var virkur þáttakandi í Guðspekifélaginu og Sálarrannsóknarfélaginu og hóf að segja frá skynjunum sínum þar, eftir að fjölskyldan flutti heim eftir þriggja ára dvöl í Bergen í Noregi 1976. Það vatt upp á sig og þróaðist í námskeið frá 1982 þar sem hún sagði frá lífssýn sinni, sem varð að félagsskapnum Lífssýn.

Á námskeiðunum var farið yfir gerð og þroskabraut mannsins og umhverfi okkar í öllum sínum víddum. Hundruð Íslendinga sóttu námskeið hennar og fór hún einnig með þau til Norðurlandanna.

Árið 1993 kom út fyrsta álfakortið sem var af byggðum huliðsheima í Hafnarfirði. Síðar komu út kort af álfabyggðum á Ísafirði og Akureyri og nú á þessu ári kort af orkustöðvum Íslands. Kortin voru gerð til að fá fólk til að skynja umhverfi, náttúru og dýr með vakandi vitund og virðingu.  

Útför Erlu fer fram frá Neskirkju 13. október 2015 og athöfnin hefst klukkan eitt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.