„Ísland er að vissu leyti mjög illa statt hvað varðar myglu. Hér er mikil bleyta og húsin okkar leka. Það er af því að við höfum verið að byggja, hanna og einangra húsin okkar vitlaust í hundrað ár.“

„Ég varaði við þessu fyrir 35 árum og síðan þá hefur oft verið bent á áhættuna. En svona er enn byggt, því þetta er þægilegra og ódýrara. Menn eru líka enn að teikna hús án þess að hugsa um þessa áhættu.“

Ríkharður bendir einnig á að eftirliti sé ábótavant eftir að Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins var lögð niður.
„Það var stofnun sem vakti yfir öllum byggingargöllum á Íslandi og kom í veg fyrir að þeir yrðu eða brást fljótt við. Ég vann þarna um tíma og við eyddum til dæmis upp alkalískemmdum í steypu á einni nóttu. Það var engin pólitík, embættismannahik og hugsað um lögsóknir heldur farið í að útrýma gallanum. Ef stofnunin væri starfandi í dag í sinni gömlu mynd hefði hún getað eytt þessum myglumálum á stuttum tíma.“
Ríkharður segir mygluvanda í húsum sem hafa verið byggð á síðustu áratugum því vera að stórum hluta á ábyrgð byggingarstéttarinnar, byggingareftirlitsins og ríkisvaldsins. En er þetta framtaksleysi vegna sparnaðar?
„Ríkið hefur alltaf lagt allt of lítinn pening í viðhald á eignum sínum. Það er á hreinu. En ég lít svo á að almennt séð séu þetta hönnunar- og byggingargallar sem ekki er tekist á við.“

Björn Karlsson er forstjóri Mannvirkjastofnunar, sem fer með umsjón á regluverki byggingariðnaðarins. Hann segir stofnunina sporna við raka og myglu með ákvæðum í byggingarreglugerðum, skoðunarhandbókum og almannafræðslu. „En við teljum ekki að við getum bannað einhverjar sérstakar byggingaraðferðir,“ segir hann.
Af hverju ekki? „Það eru til góðar og vondar byggingaraðferðir. Góð og vond hönnun og framkvæmd. Bygging er viðkvæm fyrir svo mörgum þáttum. Málið er hreinlega stærra og víðfeðmara en svo að hægt sé að stoppa það í regluverkinu.“
Spurður hvort eftirlit byggingarfulltrúa sveitarfélaganna sé nægilegt segir Björn úttektir vera gerðar. „En það getur komið fyrir að það sé búið að klæða að innan, að það sé galli í framkvæmdinni einhvers staðar sem ekki er hægt að koma auga á. Við rífum sjaldan niður til að skoða.
Björn bætir við að Mannvirkjastofnun geri sitt besta til að upplýsa almenning og byggingaraðila enda séu raka- og mygluskemmdir teknar mjög alvarlega. „En það hefur ekki tekist að útrýma þessu, hvorki hér né í nágrannalöndum. Raunhæfasta leiðin til að leysa vandann er að endurskoða tryggingakerfið svo þeir sem lenda í þessum ósköpum fái eitthvað bætt.“