Fótbolti

Þjálfari Kasakstan óskaði Íslandi til hamingju

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Yuri Krasnozhan sagði að Ísland hafi átt skilið að komast á EM í fótbolta.

Yuri Krasnozhan, landsliðsþjálfari Kasakstan, sagði að Ísland hafi átt skilið að komast á EM í fótbolta og óskaði liðinu til hamingju á blaðamannafundi eftir leikinn í kvöld.

Ísland og Kasakstan skildu jöfn í markalausum leik en stigið dugði Íslandi til að tryggja sér farseðilinn á EM í Frakklandi sem fer fram næsta sumar.

„Þetta var ánægjulegt kvöld fyrir okkur. Við fengum stig,“ sagði Krasnozhan en Kasakstan var með aðeins eitt stig í riðlinum fyrir leik kvöldsins.

„Þetta var líka ánægjulegt kvöld fyrir Íslendinga. Þeir eru komnir á EM og þeir áttu skilið að ná þessum árangri. Ég óska Íslandi til hamingju.“

„Varðandi leikinn þá voru Íslendingar betri í fyrri hálfleik. Það var jákvætt við okkar leik að við náðum að sækja líka í stað þess að verjast eingöngu, líkt og í leiknum gegn Tékklandi.“

„Ísland fékk þó fleiri tækifæri en þó engin 100 prósent færi. Þetta var því nokkuð jafn leikur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×