Fótbolti

Birkir Bjarna: Erum búnir að spila vel síðustu fjögur ár

Ingvi Þór Sæmundsson á Laugardalsvelli skrifar
Birkir Bjarnason var öflugur í leiknum í kvöld
Birkir Bjarnason var öflugur í leiknum í kvöld vísir/Daníel Þór
Birkir Bjarnason átti erfitt með að koma tilfinningum sínum í orð þegar hann ræddi við blaðamenn eftir að Ísland tryggði sér sæti á EM í fyrsta sinn í kvöld með jafntefli gegn Kasakstan.

"Nei, það er svolítið erfitt. Við erum ekki alveg búnir að átta okkur á þessu," sagði Birkir.

"Þetta var ekkert sérstakur leikur en við vissum að jafntefli myndi duga," bætti Birkir við en hann efast um að margir muni eftir úrslitum leiksins í framtíðinni.

"Það eru allir bara rosalega ánægðir með að vera komnir á EM. Við erum búnir að spila vel síðustu fjögur ár og þetta er búið að eiga sér langan aðdraganda."

Birkir segir að íslensku strákarnir hefðu verið rólegir í aðdraganda leiksins þrátt fyrir að takmarkið væri í augsýn.

"Við vorum ekkert stressaðir, við vitum hvað við getum. Við vorum að vinna Holland og ég held að flestar þjóðir beri mikla virðingu fyrir okkur," sagði Birkir sem hrósaði varnarleik Íslands en liðið hélt hreinu í sjötta sinn í átta leikjum í undankeppninni í kvöld.

"Við höfum spilað gríðarlega sterkan varnarleik og höfum líka skorað fullt af mörkum. Þetta er búið að vera nánast fullkomið," sagði Birkir.

Stemmningin á Laugardalsvellinum í kvöld var mögnuð og segir Birkir að strákarnir hafi svo sannarlega fundið fyrir henni inni á vellinum.

"Þetta hefur aldrei gerst áður og er ótrúlegt," sagði Birkir Bjarnason að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×