Innlent

Forsetinn setur stjórnmálamönnum stólinn fyrir dyrnar

Jakob Bjarnar skrifar
Það sem helst einkennir feril Ólafs Ragnars í forsetaembætti eru stanslausar vangaveltur um hvað hann sé að hugsa og hvað hann ætli; fyrirsjáanlegur ófyrirsjáanleiki.
Það sem helst einkennir feril Ólafs Ragnars í forsetaembætti eru stanslausar vangaveltur um hvað hann sé að hugsa og hvað hann ætli; fyrirsjáanlegur ófyrirsjáanleiki. visir/valli
Eiríkur Bergmann prófessor segir, eftir athyglisverða ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar forseta við setningu þings í gær, að forsetinn hafi í hálfgildings hótunum við stjórnmálamenn, og það tengist stjórnarskrármálinu og hugmyndum um að kosið verði um atriði henni tengd samhliða næsta forsetakjöri, sem er eftir níu mánuði.

„Hann byrjar á því að leggja grunn að því að það megi ekki hrófla við fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar, að íslenska lýðveldið bókstaflega hvíli á því. Segir svo að ef menn ætla að setja slíka breytingu í þjóðaratkvæði samhliða forsetakjöri sé komin upp samskonar óvissa og hann varaði við fyrir fjórum árum og var þá forsenda þess að hann gat ekki stigið til hliðar. Með öðrum orðum geti stjórnvöld sem fari gegn vilja hans í þessu hæglega átt hann á fæti í næsta forsetakjöri,“ segir Eiríkur.

Eiríkur Bergmann. Eftir að hafa skoðað ræðu forsetans betur snérist honum hugur; forsetinn ætlar aftur fram ef menn lúta ekki vilja hans.
Þetta má heita athyglisverð greining, og athyglisverð staða sem upp er komin. Jafnvel er ekki úr vegi að leggja þetta upp sem óbeina hótun forsetans. Ef menn lúta ekki hans vilja; þá fer hann fram aftur.

Hvar fæst þessi feiti sem forsetinn smyr í ræður sínar?

Flestir áhugmenn um samfélagið allt ráku upp stór augu þegar Ólafur Ragnar Grímsson forseti tilkynnti, í ræðu sinni við setningu þings í gær, að þetta yrði í síðasta skipti sem hann myndi setja Alþingi. Eiríkur var meðal fjölmargra sem dró í fyrstu þá ályktun að þar með væri forsetinn að segja að hann ætlaði að draga sig í hlé. En, þegar að er gáð, þá er þetta ekki svo einfalt. Því, þetta er í síðasta skipti „samkvæmt umboðinu sem þjóðin fól mér“ sem Ólafur Ragnar setur Alþingi. Ekkert útilokar að hann setji Alþingi aftur, þá samkvæmt umboði sem hann, ef vill, sækir sér hjá þjóðinni á nýjan leik. Eftir að hafa farið í gegnum ræðu Ólafs Ragnars snérist Eiríki hugur, Ólafur Ragnar er ekkert búinn að gefa það frá sér að sækjast eftir endurkjöri og þá á ofangreindum forsendum.

Sigurður G. Þjóðfélagsrýnar rýna og rýna og reyna að lesa í orð forsetans, svo mjög að Sigurður spyr hvar forsetinn fái þessa feiti sem hann smyr ræður sínar í?
Margir hafa tekið þessu óstinnt upp og haft uppi hin verstu orð um Ólaf Ragnar Grímsson, að það sé siðlaust og skaðlegt að geta ekki verið afdráttarlaus í orðum. Sigurður G. Tómasson fjölmiðlamaður spyr: „Hvar fæst eiginlega þessi feiti sem forsetinn smyr í ræður sínar?“

Sjá umfjöllun um fyrstu viðbrögð hér.

Stjórnarskrármálið öxulásinn

Viðbrögð Birgittu Jónsdóttur kapteins Pírata voru á pari við skilning Eiríks, og þau gat að líta strax í gær, í ræðu hennar í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra. Birgitta sagði forsetann sniðgengið nokkur afar mikilvæg atriði í málflutningi sínum um mögulega þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar samhliða forsetakosningunum.

Birgitta. Það vafðist ekkert fyrir henni að skilja um hvað forsetinn var að tala, nefnilega stjórnarskrármálið og margt bendir til þess að svo sé, að stjórnarskráin sé ofarlega í huga gamla stjórnmálafræðikennarans Ólafs Ragnars.
„Í fyrsta lagi þá eru þetta óþarfa áhyggjur hjá forseta vorum Ólafi Ragnari Grímssyni um að kosningar um stjórnarskrá samhliða forsetakosningum verði ólýðræðislegar. Það er einmitt eina mögulega leiðin til að tryggja nægilega þátttöku almennings til að vega upp á móti ólýðræðislegum 40% þátttökutálmunum sem voru settar í bráðabirgðaákvæði stjórnarskrárinnar.“

Sjá nánar um ræðu Birgittu hér.

Allt ber þetta að þeim sama brunni, stjórnarskráin virðist vera þungamiðjan í ræðu forsetans og sá er einnig skilningur stuðningsmanna hans. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor í stjórnmálafræði veltir málinu fyrir sér á Facebooksíðu sinni og honum heyrist á öllu að Ólafur Ragnar sé að „að undirbúa sig undir að vera áfram forseti. Hann tók fram, að hann væri að setja núverandi þing í síðasta sinn samkvæmt núverandi umboði. En það umboð má auðvitað endurnýja.“

Varðstaða um gömlu stjórnarskrá bindur gamla fjendur saman

Og í framhaldi segir Hannes svo: Annars skil ég ekki allt þetta tal um að breyta stjórnarskránni. Hún er um margt ágæt. Þetta er frjálslynd, evrópsk stjórnarskrá frá 19. öld, ættuð frá norsku stjórnarskránni 1814 og belgísku stjórnarskránni með viðkomu í Danmörku.“ Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra með meiru, lýsir sig hjartanlega sammála Hannesi á sinni Facebooksíðu, að ekki ekki sé unnt að „túlka ræðu Ólafs Ragnars sem tilkynningu um að hann bjóði sig ekki fram að nýju. Ræða Birgittu Pírata í stefnuræðuumræðunum var árás á Ólaf Ragnar - má túlka hana á þann veg að Birgitta ælti að bjóða sig fram til forseta gegn Ólafi Ragnari?“

Björn Bjarnason. Einhvern tíma hefði það þótt algerlega fráleitt að hann yrði svo handgenginn Ólafi Ragnari og raun ber vitni. En, varðstaða um stjórnarskrá gömlu bindur þá saman. Á Fb-vegg sínum segir Björn hugsun Ólafs nútímalega og vafasamt að einhver færi fram gegn honum í átt að forsetastóli.
Hannes og Björn eru innvígðir og innmúraðir Sjálfstæðismenn sem einmitt lögðust eindregið gegn því að ný stjórnarskrá næði fram að ganga á sínum tíma. Það hefur svo leitt til þess, meðal annars, að þeir, og skoðanabræður þeirra, eru mjög handgengnir Ólafi Ragnari, sínum fyrrum erkióvini á vettvangi stjórnmálanna, þá meðal annars frá þeim tíma sem Ólafur Ragnar Grímsson var fjármálaráðherra fyrir Alþýðubandalagið í kringum 1990.

9 mánuðir til forsetakjörs

En, það er ekki bara það að (óljósar) þvinganir forsetans sem lesa má í ræðu hans í tengslum við stjórnarskrármálið séu til þess fallnar að gera fólki gramt í geði. Þeir sem vilja, eða velta fyrir sér forsetaframboði mega bíða enn um sinn áður en þeir vita hvort þeir fari gegn sitjandi forseta eða ekki. Forsetinn hefur ítrekað verið rukkaður um svör en vill ekkert segja. Sú spurning getur ekki talist úr vegi, því að það er sitthvað að ætla að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta eða ætla að fara fram þegar sá gamli víkur.

Reyndar fellur ekki öllum sú staða jafn illa, þannig sagðist Guðni Ágústsson, einn ákafasti stuðningsmaður forsetans, ekkert vita og honum þótti það ekki verra. Þetta var í viðtali við Vísi í gær þegar menn klóruðu sér í kollinum.

Ólafur Ragnar í ham. Það er ekki til að skýra línur að forsetinn talar á stundum með allt öðrum hætti við erlendu pressuna en þá íslensku.
Þeir sem Vísir hefur rætt við, og vilja jafnvel standa vörð um rétt Ólafs Ragnars til að gefa ekkert út um þetta vísa til venju eða hefðar, að það komi fram í áramótaávarpinu. Þá séu sex mánuðir til stefnu. Sjálfur hefur Ólafur Ragnar sagt að hann ætli að bíða með að tilkynna um fyrirætlanir sínar til áramóta.

Ætlaði ekki fram aftur, en...

En, þá má spyrja á móti hvort heiðarlegt sé að vísa til hefðar og venju og þar með ekkert eðlilegra en að Ólafur Ragnar haldi spilunum þétt að sér? Ólafur Ragnar sjálfur hefur nefnilega sagt eitt og annað sem gæti stangast á við þessa hefð. Í fyrrasumar var því slegið upp að Ólafur Ragnar ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri. Og það sagði hann í viðtali við franska tímaritið Monocle. Í viðtalinu er hann spurður að því hvort hann hyggi á framboð í sjötta sinn. Hann segir svo ekki vera, hann hafi ekki ætlað að bjóða sig fram að nýju í síðustu kosningum en hafi verið hvattur til þess í undirskriftarsöfnun. „En tuttugu ár í þessum bransa er langur tími,“ segir Ólafur.

Þá sagði Ólafur í nýársávarpi sínu árið 2012 að hann hygðist snúa til annarra starfa og myndi því ekki bjóða sig til forseta að nýju, sjötta tímabilið í röð. Efnt var til undirskriftasöfnunar og rituðu um þrjátíu og eitt þúsund manns nafn sitt á listann.

Rauður þráður í öllu þessu er vafi, aftur vafi og vangaveltur. Og spyrja má hver hefur hag af því? Ólafur Ragnar er 72 ára gamall, 73 þegar forsetakjör fer fram. Ef hann situr út næsta kjörtímabil, þá verður hann orðinn 77 næst þegar hann mun íhuga hvort hann heldur áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×