Innlent

Íslensk stjórnvöld harma ákvörðun rússneskra yfirvalda

Atli Ísleifsson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir ákvörðunina vera gríðarleg vonbrigði.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir ákvörðunina vera gríðarleg vonbrigði. Vísir/E.Ól.
Íslensk stjórnvöld harma þá ákvörðun rússneskra yfirvalda að bæta Íslandi á lista yfir lönd sem sæta innflutningsbanni til Rússlands.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. „Samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins liggur fyrir að íslenskar vörur verði ekki tollafgreiddar og hætta sé á að vörum verði fargað á landamærunum.“

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir ákvörðunina vera gríðarleg vonbrigði. „Við höfum leitað allra leita til að útskýra afstöðu okkar fyrir rússneskum stjórnvöldum og þá hagsmuni sem undir eru.“

Í tilkynningunni kemur fram að ljóst sé að bannið feli í sér að íslenskum fyrirtækjum verði ekki lengur unnt að markaðssetja sjávarafurðir í Rússlandi auk þess sem bannið taki til landbúnaðarvara að frátöldu lambakjöti, ærkjöti, hrossakjöti og niðursoðnu fiskmeti í dósum. „Ísland mun halda áfram því samtali sem ráðherrar og embættismenn hafa átt við Rússa á síðustu vikum til að draga úr áhrifum þessarar ákvörðunar.“

Ísland, Albanía, Liechtenstein, Svartfjallaland og Úkraína bætast nú í hóp þar sem fyrir eru Danmörk, Svíþjóð, Finnland, Þýskaland, Bretland, Írland, Frakkland, Spánn, Portúgal, Ítalía, Holland, Belgía, Lúxemborg, Malta, Grikkland, Kýpur, Austurríki, Pólland, Ungverjaland, Eistland, Lettland, Litháen,Tékkland, Slóvakía,Slóvenía, Rúmenía, Búlgaría, Króatía, Bandaríkin, Noregur, Kanada og Ástralía.


Tengdar fréttir

SFS: Slæm tíðindi fyrir þjóðina alla

Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hefur áhyggjur af stöðu íslenskra sjávarútvegisfyrirtækja í kjölfar viðskiptabanns Rússa.

Gunnar Bragi segir viðskiptabann Rússa vonbrigði

„Við höfum verið í stöðugum samskiptum við rússneska embættismenn og stjórnvöld, reynt að fylgjast með þessu en fengum engar upplýsingar um þetta,“ segir utanríkisráðherra.

Rússar setja viðskiptabann á Íslendinga

Rússland hefur ákveðið að setja viðskiptabann á matvæli frá fimm ríkjum til viðbótar við það bann sem þegar hafði verið sett á ríki Evrópusambandsins. Löndin eru Albanía, Svartfjallaland Liechtenstein og Úkraína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×