Innlent

Bæjarstjórinn fékk launahækkun upp á fimm milljónir

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Haraldur Líndal er bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Haraldur Líndal er bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Vísir
Laun bæjarstjórans í Hafnarfirði hafa hækkað um tæp 28 prósent meðan mikill niðurskurður hefur átt sér stað í rekstri bæjarins. Þar af hefur bílastyrkurinn hækkað um tæp níutíu prósent á undanförnum mánuðum. Bæjarfulltrúi minnihlutans vill vita hvort bæjarstjórinn fari suðurstrandaleið í vinnuna.

Minnihluti bæjarráðs Hafnarfjarðar fékk í síðustu viku yfirlit yfir launagreiðslur til Haraldar Líndal Haraldssonar bæjarstjóra. Laun bæjarstjóra voru hækkuð þegar hann réði sig þangað á sínum tíma en fulltrúa í bæjarstjórn greindi þá á um hvort hækkunin næmi 15 prósentum eða tæpum 29 prósentum. Bæjarfulltrúar minnihlutans hafa nú fengið staðfest að hækkunin nemur fimm milljónum á ári eða 27, 5 prósentum.

Flestir sem sagt var upp á sextugs- eða sjötugsaldri

Gunnar Axel Axelsson bæjarfulltrúi segir að á sama tíma hafi tólf lykilstarfsmönnum hjá bænum verið sagt upp í hagræðingarskyni.  Hann segir að launahækkun bæjarstjórans sé meiri en margir bæjarstarfsmenn hafi í árslaun fyrir fullt starf. Það sé sorglegt hvernig bæjaryfirvöld hafi komið fram við uppsagnirnar en flestir þeirra sem hafi orðið fyrir barðinu á þeim séu á sextugs- og sjötugsaldri, vinnubrögðin einkennist af hroka og það sé sorglegt að svona sé komið fram við starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar.

Gunnar segir að auk uppsagnanna hafi verið gengið mjög hart fram í að skera niður ýmsar aukagreiðslur hjá þeim sem hafa minna á milli handanna en bæjarstjórinn. Þessvegna veki rífleg hækkun á bílastyrk bæjarstjórans athygli en hann sé búsettur í Garðabæ og þurfi því ekki að sækja vinnu langar leiðir. Nema auðvitað að hann fari suðurstrandaveginn til Hafnarfjarðar.Fleiri fréttir

Sjá meira


×