Innlent

Bæjarstjórinn fékk launahækkun upp á fimm milljónir

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Haraldur Líndal er bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Haraldur Líndal er bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Vísir

Laun bæjarstjórans í Hafnarfirði hafa hækkað um tæp 28 prósent meðan mikill niðurskurður hefur átt sér stað í rekstri bæjarins. Þar af hefur bílastyrkurinn hækkað um tæp níutíu prósent á undanförnum mánuðum. Bæjarfulltrúi minnihlutans vill vita hvort bæjarstjórinn fari suðurstrandaleið í vinnuna.

Minnihluti bæjarráðs Hafnarfjarðar fékk í síðustu viku yfirlit yfir launagreiðslur til Haraldar Líndal Haraldssonar bæjarstjóra. Laun bæjarstjóra voru hækkuð þegar hann réði sig þangað á sínum tíma en fulltrúa í bæjarstjórn greindi þá á um hvort hækkunin næmi 15 prósentum eða tæpum 29 prósentum. Bæjarfulltrúar minnihlutans hafa nú fengið staðfest að hækkunin nemur fimm milljónum á ári eða 27, 5 prósentum.

Flestir sem sagt var upp á sextugs- eða sjötugsaldri
Gunnar Axel Axelsson bæjarfulltrúi segir að á sama tíma hafi tólf lykilstarfsmönnum hjá bænum verið sagt upp í hagræðingarskyni.  Hann segir að launahækkun bæjarstjórans sé meiri en margir bæjarstarfsmenn hafi í árslaun fyrir fullt starf. Það sé sorglegt hvernig bæjaryfirvöld hafi komið fram við uppsagnirnar en flestir þeirra sem hafi orðið fyrir barðinu á þeim séu á sextugs- og sjötugsaldri, vinnubrögðin einkennist af hroka og það sé sorglegt að svona sé komið fram við starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar.

Gunnar segir að auk uppsagnanna hafi verið gengið mjög hart fram í að skera niður ýmsar aukagreiðslur hjá þeim sem hafa minna á milli handanna en bæjarstjórinn. Þessvegna veki rífleg hækkun á bílastyrk bæjarstjórans athygli en hann sé búsettur í Garðabæ og þurfi því ekki að sækja vinnu langar leiðir. Nema auðvitað að hann fari suðurstrandaveginn til Hafnarfjarðar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.