Innlent

„Það að enginn hafi leitað til okkar segir ekkert til um raunveruleikann“

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta
Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta 365/Þorbjörn Þórðarson
„Þannig hefur það verið undanfarin mörg ár, þau sem leita til okkar koma seint og um síðir,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona samtakanna Stígamóta, aðspurð hvort einhver hafi leitað til samtakanna vegna kynferðisbrota um eða eftir verslunarmannahelgina. Stígamót berjast gegn kynferðisofbeldi og veita aðstoð fyrir fólk sem hafa orðið fyrir slíku ofbeldi.

Guðrún segir mjög fáa hafa samband við Stígamót vikuna eftir verslunarmannahelgi.

„Vegna þess að það telur sig geta komist yfir og grafið og gleymt það sem gerðist. Þegar það svo seinna áttar sig á því að það er ekki svo einfalt þá leita þau oft hjálpar hjá til okkar. Þau sem leita hjálpar strax leita gjarnan til neyðarmóttöku. Það að enginn hafi leitað til okkar enn þá segir ekkert til um það hvort og þá hversu mikið kynferðisofbeldi hefur verið framið yfir helgina,“ segir Guðrún.

Samkvæmt ársskýrslu Stígamóta fyrir árið 2014 leituðu tíu til samtakanna vegna kynferðisofbeldis á útihátíðum. Guðrún segir að það að enginn hafi leitað til samtakanna nú eftir verslunarmannahelgina segi ekkert til um hvort kynferðisbrot hafi átt sér stað. „Því miður, það að enginn hafi leitað til okkar segir ekkert til um raunveruleikann.“



„Við hvetjum þau sem kunna hafa verið beitt ofbeldi að leita hjálpar hjá neyðarmóttöku eða Stígamótum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×