Innlent

Helgi Seljan hneykslaður á umfjöllun Eyjafrétta

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Helgi Seljan er ósáttur við umfjöllun Eyjafrétta.
Helgi Seljan er ósáttur við umfjöllun Eyjafrétta. Páll Bergmann

„Bíddu hvaða rugl er þetta? Er þetta allt í einu farið að snúast upp í einhvern
fótboltaleik?“ Þetta segir Helgi Seljan aðspurður hvað honum finnist um umfjöllun Eyjafrétta um umræðuna sem átti sér stað í þættinum Vikulokin á Rás 1 sl. laugardag.

Í nýjasta eintaki Eyjafrétta sem kom út í dag skrifar Ómar Garðarsson, ritstjóri blaðsins, grein þar sem hann gagnrýnir harðlega þá umræðu sem fór fram í þættinum Vikulokin sem Helgi Seljan stýrði. Umfjöllunarefni þáttarins var fréttir vikunnar og voru umdeild tilmæli Páleyjar Borgþórssdóttur, lögreglustjóra Vestmannaeyja um að veita fjölmiðlum ekki upplýsingar um kynferðisbrot á Þjóðhátíð um verslunarmannahelgina fyrirferðarmikil í þættinum.

„Það var ófögur mynd sem dregin var upp af þjóðhátíð Eyjamanna og þeim sjálfum í þættinum, Vikulokin á Rás eitt sl. laugardagsmorgun. RÚV ákvað að gefa skotleyfi á Páleyju Borgþórsdóttur og þjóðhátíðina. Það vissi Helgi Seljan fyrir þegar hann valdi viðmælendur í laugardagsþátt sinn, allt valinkunnir Akureyringar,“ segir í greininni í Eyjafréttum.

Helgi hafnar því að með þessu tiltekna vali á viðmælendum hafi hann verið að gefa út skotleyfi á þjóðhátíðina.

„Umræðan fjallaði einna minnst um Þjóðhátíðina sem slíka. Þetta var um þessa ákvörðun lögreglustjórans sem er auðvitað fordæmlaus og vakti miklar deilur. Það var ekkert óeðlilegt að það yrði rætt þarna.“

„Ég var að tala við fólk í þessum þætti eins og svo oft áður. Þetta eru þrír viðmælendur og það vill svo til að þátturinn var sendur út frá Akureyri og þeir eru Akureyringar. Þetta snerist ekki um Akureyri vs. Vestmannaeyjar.“

„Ómar Garðarsson verður að átta sig á því að þó að í einhverri tiltekinni frétt sé rætt um einhvern sem búi í Eyjum, þá á það ekkert við alla í Eyjum. Ekki frekar en þegar þú ræðir við einhvern sem vill svo til að er í Ungmennafélagi Stjörnunnar er ekkert verið að tala um alla Stjörnumenn. Það er verið að tala um stjórnsýsluákvörðun opinbers embættis. Umræðan snýst ekki um Eyjamenn í neinum skilningi.“

Helgi er ósáttur við grein Ómars og telur hann hafa rifið hluti úr samhengi.

„Hann er náttúrulega að rífa hluti þarna úr samhengi, láta eins og ég hafi verið að taka það sérstaklega fram að ég vildi ekki vera í Vestmannaeyjum. Það var enginn að reyna að níða almennt skóinn af Vestmannaeyingum.“


Tengdar fréttir

Lögreglustjórinn stendur við þögn um kynferðisbrot

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum stendur við ákvörðun sína um bann við upplýsingum til fjölmiðla um möguleg kynferðisbrotamál á þjóðhátíð. Talskona Stígamóta segir það valda sérstökum áhyggjum að lögreglustjórinn hafi ekki betri skilning á eðli kynferðisbrota og hvernig beri að fara með þau.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.