Innlent

Fjárfestar vilja halda út rekstri nýs bæjarblaðs á Akureyri

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Björn Þorláksson segir að það sé mikilvægt að áfram sé gefið út gagnrýnið blað í héraðinu.
Björn Þorláksson segir að það sé mikilvægt að áfram sé gefið út gagnrýnið blað í héraðinu. Vísir
Hópur fjárfesta vill halda úti rekstri nýs bæjarblaðs á Akureyri í kjölfar þess að eigendaskipti urðu á Akureyri Vikublaði. Þetta segir Björn Þorláksson, ritstjóri vikublaðsins, en honum var í gær tilkynnt að fyrirtækið Fótspor hefði hætt útgáfustarfsemi sinni. Síðar um daginn bárust þær fréttir að Vefpressan hefði keypt útgáfuréttinn.

„Tugir manna eru búnir að hafa samband við mig og segja að þeir myndu líta á það sem hræðilegt afturhvarf ef gagnrýnin rödd hér í héraðinu myndi lognast út af,“ segir Björn. „Ekki síst í ljósi þeirra umsvifa sem hafa orðið á fjölmiðlamarkaði, þá vill maður hafa sem flesta miðla og eignarhald sem dreifðast. Þetta er líka spurning um ábyrgð gagnvart samfélaginu.“

Björn segir að það sé mikilvægt að áfram sé gefið út gagnrýnið blað í héraðinu.

„Vitaskuld eru ýmis aðvörunarljós sem blikka, bæði í tengslum við þessa yfirtöku og fyrri yfirtökur,“ segir hann. „Maður sér það þannig að það sé verið að kaupa upp miðla til þess að hafa áhrif á ritstjórnarstefnu. Til þess að breyta henni, þagga niður í gagnrýnum röddum og svo framvegis. Það er náttúrulega mjög alvarlegt mál.“

Björn og Ingimar Karl Helgason, ritstjóri Reykjavíkur Vikublaðs sem einnig var gefið út af Fótsporum, segja að ekki hafi verið haft samband við sig í kjölfar eigendaskiptanna. Björn Ingi Hrafnsson, einn eigenda Vefpressunnar, sagði í skriflegu svari til fréttastofu í morgun að útgáfu vikublaðanna yrði ekki hætt og að beðið væri samþykkis Samkeppniseftirlitsins á kaupunum á Fótsporum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.