Enski boltinn

Sherwood: Liverpool þarf að greiða riftunarverð Benteke

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Liverpool er í leit að sóknarmanni eftir brotthvarf Raheem Sterling og hafa Christian Benteke og Marco Reus verið sterklega orðaðir við félagið.

Benteke endaði síðasta tímabil af krafti með Aston Villa og átti til að mynda stóran þátt í því að slá Liverpool úr leik í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar.

Fullyrt í enskum fjölmiðlum að viðræður á milli félaganna um Benteke muni eiga sér stað á næstu dögum en stjórinn Tim Sherwood segir að ekki komi til greina að semja um lægra kaupverð en 32,5 milljónir punda sem er riftunarverð á samningi Benteke við Villa.

„Ég held að Christian sé meira virði en 32 milljónir punda. En við viljum ekki selja. Við viljum ekki fá þennan pening. Þegar maður missir leikmann þá er mjög erfitt að finna einhvern til að fylla í skarð viðkomandi. Það er nánast ómögulegt,“ sagði Sherwood.

„Við vitum að Christian er mjög góður leikmaður og við viljum halda honum. En ef einhver er tilbúinn að greiða riftunarverð samningsins þá er ekkert sem við getum gert í því. En þar til að það gerist er hann leikmaður Aston Villa og við erum mjög ánægðir með það.“

Benteke á tvö ár eftir af samningi sínum við Villa en þess má geta að Liverpool seldi Sterling til Manchester City fyrir 49 milljónir punda. Þar af fara tæpar tíu milljónir til QPR sem seldi Sterling til Liverpool á sínum tíma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×