Íslenski boltinn

Tryggvi mætti á æfingu undir áhrifum: „Ég gerði mistök“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tryggvi stoppaði stutt við í starfi hjá ÍBV.
Tryggvi stoppaði stutt við í starfi hjá ÍBV. vísir/stefán
Eins og greint var frá fyrr í dag hefur ÍBV rekið Tryggva Guðmundsson frá störfum sem aðstoðarþjálfara liðsins í Pepsi-deild karla.

Vefsíðan 433.is greindi frá því í gær að Tryggvi hefði verið rekinn fyrir leikinn gegn Breiðabliki þar sem hann átti að stýra Eyjamönnum í fjarveru Jóhannesar Harðarsonar.

Óskar Örn Ólafsson og Hjálmar Jónsson, formaður og framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar ÍBV, sögðu við Vísi í gær að Tryggvi hefði ekki verið rekinn en annað kom fram í fréttatilkynningu frá félaginu í dag.

Settust niður saman eftir atvikið

„Ég gerði mistök á laugardaginn, daginn fyrir leik. Ég mætti á æfingu undir áhrifum,“ viðurkenndi Tryggvi Guðmundsson við Vísi nú rétt í þessu.

„Við settumst auðvitað niður saman eftir það, bæði þá, aftur í gær og aftur í dag. Við urðum sammála um það sem kemur fram í fréttatilkynningunni.“

Tryggvi er mjög meðvitaður um hvað hann gerði rangt.

Annað sem skiptir meira máli núna

„Það er klárt mál. Ég gerði stór mistök og það ber að refsa fyrir það,“ segir hann, en Tryggvi viðurkennir að hann dreymdi um að taka við Eyjaliðinu síðar meir.

„Að sjálfsögðu hafði maður það. En maður kemur sér í þessi leiðindarmál sjálfur. Ég mun nú bara skoða mín mál.“

Aðspurður hvort hann telji að þetta muni koma í veg fyrir að fái annað starf í boltanum sagði Tryggvi:

„Það er alltof snemmt að segja eitthvað til um það. Það er annað sem skiptir meira máli núna,“ sagði Tryggvi Guðmundsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×