Erlent

Hillary Clinton kallaði eftir jöfnuði

Samúel Karl Ólason skrifar
Hillary Clinton flutti ræðu fyrir framan fjölmenni í New York.
Hillary Clinton flutti ræðu fyrir framan fjölmenni í New York. Vísir/EPA
Hillary Rodham Clinton hélt fyrstu stóru ræðu sína í kosningaherferð sinni í New York fylki í dag. Í ræðu sinni biðlaði Hillary til vinnandi fólks og sagði að þau gætu treyst sér til að berjast fyrir þau. Þetta er í annað sinn sem hún reynir að fara í forsetaframboð fyrir Demókrata, en hún tapaði gegn Barack Obama fyrir átta árum.

Hillary Clinton sat í öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir New York í átta ár. Hún endaði ræðu sína á því að segja að hún vildi byggja upp land þar sem faðir gæti sagt dóttur sinni að hún gæti gert allt sem hún vildi. Jafnvel verða forseti Bandaríkjanna.

Samkvæmt AP fréttaveitunni sækjast þeir Bernie Sanders, Martin O´Malley og Lincoln Chaffe, einnig um tilnefningu Demókrataflokksins.

Samkvæmt BBC hefur Hillary hingað til einungis flutt ræður fyrir smáa hópa fólks og er ræðan í dag til marks um að kosningaherferð hennar sé komin í háa gírinn. Hún vonast til þess að verða fyrsta kvenkyns forseti Bandaríkjanna og að halda Hvíta húsinu í höndum Demókrata þriðja kjörtímabilið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×