Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir: Fjölnir - Leiknir 3-0 | Fjölnir tveimur stigum frá toppnum

Anton Ingi Leifsson skrifar
vísir/vilhelm
Fjölnir er einugnis tveimur stigum frá toppliði FH þegar átta umferðir eru búnar af Pepsi-deild karla, en Fjölnir vann 3-0 sigur á nýliðum Leiknis i hörkuleik í Grafarvogi í dag. Tveir af þremur framherjum Fjölnis, Aron Sigurðarson og Þórir Guðjónsson, sáu um markaskorunina, en Aron skoraði meðal annars frábært mark.

Leikurinn var ekki opin og eigilega ekki nærri því. Menn komust næst því að skora með áhugaverðum langskotum sem enduðu flest lengst bakvið mörkin, en í síðari hálfleik komu mörkin þrjú sem skoruð voru.

Fyrri hálfleikurinn fer ekki í neinar sögubækur fyrir skemmtilega knattspyrnu. Bæði lið áttu nokkrar átitlegar sóknir, en bæði liðum tókst illa að skapa sér afgerandi tækifæri. Bergsveinn Ólafsson, fyrirliði Fjölnis, átti í vandræðum í vörn heimamanna og gaf hann meðal annars eitt færi sem Ólafur Hrannar náði ekki að nýta sér.

Bæði lið reyndu þó að spila fótbolta og ekki var mikið um kýlingar í leiknum. Inn á milli áttu liðin flotta spilamennsku sem endaði með ágætis fyrirgjafarstöðum, en þá runnu sóknirnar oft út í sandinn. Það vantaði punktinn yfir i-ið til þess að búa til alvöru marktækifæri og jafnvel mark eða mörk.

Besta færi fyrri hálfleiks kom þó á 36. mínútu. Eftir laglega sókn gaf Guðmundur Karl boltann fyrir markið, þar kom Aron Sigurðarson aðvífandi en skaut boltanum af einhverjum óskiljanlegum ástæðum í hliðarnetið af markteig. Menn, bæði í stúkunni og inni á vellinum, fórnuðu höndum og gripu um höfuð sér. Gullið tækifæri, en markalaust í hálfleik.

Síðari hálfleikur var svipaður og sá fyrri. Mikið var um stöðubaráttu, en fyrsta markið kom eftir tæplega klukkutíma leik. Það geðri hinn eini sanni Aron Sigurðarson en hann hefur verið sprækur það sem af er tímabilinu. Markið skoraði hann eftir laglegan einleik sem endaði með þrumuskoti í fjærhornið.

Fjölnismenn hafa verið að spila afar sterkan varnarleik það sem af er tímabilinu, en þeir höfðu fyrir leikinn í dag fengið á sig næstfæst mörkin í deildinni. Einungis Breiðablik höfðu fengið færri á sig eða fimm talsins. Varnarleikurinn var afar þéttur og Leiknismenn sköpuðu sér fá færi, en dómgæslan var þó ekki þeim hliðholl.

Vafaatriði í dómgæslunni féllu ekki með Leikni í dag. Ólafur Hrannar féll í baráttu við Arnór Eyvar innan vítateigs Fjölnismanna, en Þóroddur Hjaltalín, dómari leiksins, lét sér fátt um finnast. Einungis þremur mínútum síðar gerðist annað umdeilt atvik. Kristján Páll Jónsson, vængmaður Leiknis, kom þá boltanum fyrir markið alveg við endalínuna og Kolbeinn ýtti boltanum yfir línuna og virtust gestirnir vera að jafna. Smári Stefánsson, aðstoðardómari tvö, var þó ekki á sama máli flaggaði þó boltann útaf við litla hrifningu Leiknismanna. Tvö RISA stór atvik.

Gestirnir úr Breiðholtinu gerðu allt hvað þeir gátu til þess að jafna metin, en þeim vantaði örlitla meiri greddu til þess að jafna metin og örlitla meira yfirsýnari á síðasta þriðjungnum. Þórir Guðjónsson gerðu svo út um leikinn með marki úr þrumuskoti þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum og Aron Sigurðarson bætti við mögnuðu marki í uppbótartima með marki af 40 metra færi.

Ólafur Páll Snorrason spilaði enn og aftur eins og herforingi á miðjunni og stýrði liðið Fjölnis vel og vandlega, en hann og Emil Pálsson eru að ná afar vel saman á miðjunni og áttu þeir báðir góðan leik. Einnig átti Aron Sigurðarson fínan leik. Hann var áræðinn og tók af skarið sem endaði með því að hann skilaði marki. Hilmar Árni reyndi að búa til færi fyrir Leikni, en aðrir leikmenn hrifu ekki.

Eftir sigurinn eru Fjölnismenn tveimur stigum á eftir FH á toppnum og sitja í þriðja sætinu. Fjölnismenn hafa fengið á sig einungis sjö mörk í deildinni og unnu í kvöld sinn þriðja leik í kvöld, en Leiknismenn eru að koma úr afar erfiðu prógrammi. Þeir hafa ekki unnið í síðustu fjórum leikjum og eru með átta stig í áttunda sæti; fjórum stigum frá fallsæti.

Aron var frábær í kvöld.vísir/vilhelm
Aron Sig: Tók ekki eftir neinu víti eða umdeildu atviki

„Þetta var mjög kærkominn sigur þrátt fyrir að við höfum ekki spilað okkar besta leik í sumar náðum við þremur stigum og héldum hreinu,” sagði Aron Sigurðarson, framherji Fjölnis, við Vísi í leikslok, en Aron gerði tvö mörk í leiknum.

„Við héldum góðu skipulagi allir á vellinum og það er mjög kærkomið.”

„Ég var búinn að reyna að láta vaða nokkur skot, en þau voru að fara langt framhjá. Það var ljúft að sjá fyrsta markið inni og annað markið líka.”

„Það þýðir ekkert annað en að keyra á varnarmennina. Þegar maður er kominn inn í teig verður maður að reyna gera eitthvað.”

Leiknismönnum fannst að þeim vegið í dómgæslunni, en Aron man ekki eftir hvenær í leiknum gestirnir vildu fá vítaspyrnu.

„Nei, ég sá ekkert. Ég sá þegar þeir dæmdu markspyrnu þegar þeir náðu að skora, en ég tók ekki eftir neinu víti eða umdeildu atviki.”

„Við erum ánægðir með það. Við erum að spila vel og halda skipulagi. Við erum að setja að mér finnst góð mörk á þá, þannig ég er mjög sáttur.”

„Ég sá að Eyjólfur stóð framarlega og við vorum með vindinnn í bakið svo ég ákvað að láta bara viða og það var mjög ljúft að sjá hann inni,” sagði Aron í leikslok.

Freyr: Risastórar ákvarðanir

Freyr Alexandersson, annar af þjálfurum Leiknis, í Pepsi-deild karla var ósáttur með Þórodd Hjaltalín, dómara, og hans aðstoðarmenn í 3-0 tapi Leiknis gegn Fjölni í kvöld.

„Það er svekkelsi fyrst og fremst. Mér fannst við eiga meira skilið úr þessum leik en ekki neitt,” sagði Freyr í samtali við Vísi í leikslok.

„Það er pirrandi að leka inn einhverjum mörkum svo þetta líti illa út, en auðvitað snýst þetta fyrst og fremst um frammistöðuna og hún var góð. Ég held að það viti það allir að við áttum að fá meira út úr þessu.”

„Við fáum nóg af færum til að vinna leikinn. Þeir fá engin færi í leiknum, en þeir áttu tvö frábær langskot og virkilega góð mörk. Ég held að við höfum skorað löglegt mark eftir að við spilum þá sundur og saman og svo áttum við að fá klára vítaspyrnu.”

„Ef við tölum um færi, og ekki færi, og hvernig leikurinn spilaðist þá spilaðist hann þannig að við vorum að stjórna umferðinni, en þeir gerðu vel og eru með mómentið dálítið með sér. Frábær sigurganga hjá þeim og ég óska þeim til hamingju með sigurinn.”

Tvær umdeildar ákvarðanir dómara-tríósins féllu ekki Leikni í hag og Freyr var ekkert sérstaklega ánægður með þær, skiljanlega.

„Þetta er bara svekkjandi. Ég vil lítið vera að segja um þetta, en þetta eru rangar ákvarðanir. Þetta eru bara risastórar ákvarðanir og fútl fyrir okkur að lenda í því, en svona er þetta. Vonandi dettur eitthvað með okkur seinna,” en er Freyr orðinn stressaður enda hafa Leiknismenn ekki unnið í fjórum leikjum í röð?

„Nei. Við vorum að koma úr rosalegu prógrammi á móti liðum sem höfðu meiri gæði en við (FH, Breiðablik og Stjarnan). Við spiluðum ágætis leiki og erum að taka helling gott úr þeim leikjum.”

„Í dag erum við bara með 50-50 leik og við áttum að fá meira út úr þessum leik. Það er svekkjandi, en það er bara áfram gakk. Við eigum Fylki eftir helgi og við verðum klárir þá,” sagði Freyr í samtali við Vísi í leikslok.

Þórir Guðjónsson skoraði annað mark Fjölnis.Vísir/Vilhelm
vísir/vilhelm
vísir/vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×