Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Komust lítt áleiðis gegn okkur

Ingvi Þór Sæmundsson á Samsung-vellinum skrifar
vísir/ernir
"Jájá, svona þegar maður lítur yfir leikinn í heild sinni," sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir jafnteflið við FH á Samsung-vellinum í kvöld.

"Ég held að jafnteflið hafi verið sanngjarnt. Ég hefði samt viljað klára leikinn, þeir komust ekkert áleiðis gegn okkur. Þeir fengu svo ódýrt mark eftir hornspyrnu sem við ætluðum ekki að fá á okkur. Þeir eru sterkir í föstum leikatriðum og við vorum klaufar að fá þetta mark á okkur.

Rúnar var sammála mati blaðamanns að Stjarnan hefði getað nýtt skyndisóknir sínar betur í leiknum en heimamenn sköpuðu sér afar fá færi eftir að hafa komist yfir strax á 6. mínútu með marki Ólafs Karls Finsen.

"Við skoruðum mjög fínt mark en hefðum mátt nýta skyndisóknirnar betur. Það voru miklar opnanir í FH-vörninni þegar við komum hratt á þá og við hefðum getað nýtt þessar stöður betur," sagði Rúnar og bætti við:

"En ég var mjög sáttur með spilamennsku minna manna og varamennirnir komu sterkir inn á. Ég er virkilega ánægður með frammistöðuna," sagði Rúnar en hann kvaðst hafa sett Garðar Jóhannsson í byrjunarliðið á kostnað Jeppe Hansen vegna styrks Garðars í föstum leikatriðum, bæði í vörn og sókn.

Michael Præst spilaði sinn fyrsta leik síðan í byrjun ágúst í fyrra þegar hann meiddist í Evrópuleik gegn Lech Poznan. Rúnar var ánægður með innkomu Danans í kvöld.

"Hann var mjög öflugur. Hann er leiðtogi, stýrir liðinu mjög vel og það er gott að hafa endurheimt hann. Halldór Orri (Björnsson) hefur leyst þessa stöðu vel fyrir okkur en hann er ekki miðjumaður fyrir fimmaura," sagði Rúnar að lokum.


Tengdar fréttir

Dagurinn hans Doumbia

Fréttablaðið fékk Hjörvar Hafliðason úr Pepsi-mörkunum til að velta fyrir sér stórleik kvöldsins þegar FH-ingar heimsækja Íslandsmeistara Stjörnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×