Enski boltinn

Henry: Gerrard einn af þeim bestu þó hann hafi aldrei unnið deildina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Steven Gerrard á tvo leiki eftir á Englandi.
Steven Gerrard á tvo leiki eftir á Englandi. vísir/getty
Thiery Henry, fyrrverandi framherji Arsenal og einn markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi, segir að Steven Gerrard verði minnst sem einn af bestu leikmönnum deildarinnar þrátt fyrir að vinna hana aldrei.

Gerrard spilaði sinn fyrsta leik fyrir Liverpool 18 ára gamall árið 1998, en hann spilar sinn síðasta heimaleik á laugardaginn gegn Crystal Palace.

„Það verður sorgardagur þegar hann yfirgefur deildina. Ég er ekki aðdáandi Liverpool en ég er fótboltaaðdáandi. Að sjá Gerrard ekki klæðast rauðu treyjunni og stíga út úr göngunum á Anfield verður skrítið,“ segir Henry við Sky Sports þar sem hann starfar sem sérfræðingur í dag.

„Ég spilaði svo oft á móti góðum leikmönnum, sérstaklega í ensku úrvalsdeildinni. Frank Lamard var einstakur og Paul Scholes var maðurinn sem við hræddumst þegar ég spilaði með Arsenal á móti Man. United. Steven Gerrard er í þessum flokki.“

„Hann vann kannski ekki deildina en hann veitti manni svo mikla ánægju að maður virðir hann gríðarlega. Hann er einn af bestu leikmönnunum sem spilað hafa í ensku úrvalsdeildinni,“ segir Thierry Henry.

Gerrard skoraði 185. markið sitt fyrir Liverpool gegn Chelsea um síðustu helgi en hann hefur spilað yfir 700 leiki fyrir félagið á 17 ára ferli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×