Enski boltinn

Lið ársins að mati Neville og Carragher

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neville og Carragher í ham.
Neville og Carragher í ham. vísir/getty
Gary Neville og Jamie Carragher opinberuðu í gær lið ársins í ensku úrvalsdeildinni að þeirra mati í þættinum Monday Night Footbal sem sýndur er á Sky Sports.

Þeir félagar voru sammála um níu af 11 leikmönnum í liðinu. Báðir völdu þeir David De Gea í markið, Chelsea-mennina Branislav Ivanovic, John Terry og Cesar Azpilicueta í vörnina, Alex Sánchez á hægri kantinn, Eden Hazard á þann vinstri, Cesc Fábregas og Nemanja Matic á miðjuna og Sergio Agüero frammi.

Þeir voru sumsé ekki sammála um hver ætti að vera með Terry í miðri vörninni og hver við hlið Agüeros í framlínunni.

Carragher valdi Koscielny í liðið sitt.vísir/getty
Carragher valdi Laurent Koscielny (Arsenal) í miðvarðarstöðuna og máli sínu til stuðnings benti hann m.a. á að Arsenal hefði haldið 10 sinnum hreinu með Frakkann í liðinu en aðeins tvisvar sinnum þegar hann var fjarverandi.

Neville valdi hins vegar Gary Cahill og var því með varnarlínu Chelsea í heild sinni í liðinu og alls átta leikmenn úr meistaraliðinu.

Carragher valdi Harry Kane, leikmann Tottenham, í framlínuna og rökstuddi valið m.a. með því að benda á frammistöðu hans gegn Chelsea á nýársdag þar sem Kane fór illa með varnarmenn bláliða í 5-3 sigri Tottenham.

Neville var hins vegar með Diego Costa, framherja Chelsea, í liðinu en hann hefur skorað 19 deildarmörk á sínu fyrsta tímabili í ensku úrvalsdeildinni.

Neville og Carragher voru sammála um Eden Hazard sem leikmann ársins, David De Gea sem besta unga leikmanninn og Ronald Koeman sem knattspyrnustjóra ársins.

Carragher valdi Alexis Sánchez í flokknum nýliði ársins en Neville Thibaut Courtios, markvörð Chelsea.

Hazard er leikmaður ársins að mati sérfræðinga Monday Night Football.vísir/getty
Lið ársins að mati Neville:

De Gea; Ivanovic, Cahill, Terry, Azpilicueta; Sánchez, Fábregas, Matic, Hazard; Costa, Agüero.

Lið ársins að mati Carragher:

De Gea; Ivanovic, Koscielny, Terry, Azpilicueta; Sánchez, Fábregas, Matic, Hazard; Kane, Agüero.

Leikmaður ársins: Hazard (báðir)

Besti ungi leikmaðurinn: De Gea (báðir)

Knattspyrnustjóri ársins: Koeman (báðir)

Nýliði ársins: Courtois (Neville), Sánchez (Carragher)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×