Enski boltinn

Mourinho: Enska deildin er miklu jafnari og skemmtilegri en sú spænska

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Á toppnum.
Á toppnum. vísir/getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Chelsea, segir að Barcelona og Real Madrid ættu í vandræðum með að vinna ensku úrvalsdeildina.

Mourinho, sem stýrði Real Madrid á árunum 2010-2013, hefur oft og iðulega talað um hversu jöfn enska úrvalsdeildin sé í samanburði við þá spænsku.

„Ég naut þess ekki að vera á Spáni,“ sagði Mourinho.

„Ég naut þess ekki því við unnum deildina með 100 stigum og skoruðum 121 mark, sem er met, en við spiluðum bara 3-4 alvöru leiki allt tímabilið. Tímabilið á undan lentum við í 2. sæti með 92 stig og spiluðum bara 4-5 alvöru leiki.

„Það er mikil pressa á þér að vinna alla leiki því ef þú gerir það ekki verðurðu ekki meistari. Það er mjög breitt bil á milli stóru liðanna og hinna.

„Það er mikill munur á milli deildanna (ensku og spænsku). Myndu Barcelona eða Real Madrid vinna ensku deildina. Kannski, kannski ekki.“

Máli sínu til stuðnings vísaði Mourinho til bikarleiksins sem Chelsea tapaði 4-2 fyrir Bradford eftir að hafa komuist 0-2 yfir.

„Ég hvíldi nokkra leikmenn á móti Bradford og við töpuðum. Svona er enski boltinn. Ef þú ert 2-0 yfir og færð á þig mark veistu að lokamínúturnar verða andstyggilega erfiðar.

„Þú færð engan tíma í ensku úrvalsdeildinni. Þetta snýst ekki bara um fjölda leikja heldur ákefðarstigið, bæði líkamlegt og andlegt,“ sagði Mourinho en Chelsea tapaði 3-0 fyrir West Brom í gærkvöldi. Tapið breytti þó litlu því Chelsea var þegar búið að vinna Englandsmeistartitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×