Innlent

Strokkur gaus rauðu - Myndband

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ferðamenn ráku upp stór augu í morgun þegar Strokkur tók að gjósa. Ásýnd hversins var með öðru móti en vanalega en svo virðist sem rauðu litarefni hafi verið hellt út í sem varð til þess að hann gaus rauðu.

Listamaðurinn Marco Evaristti ber ábyrgð á uppátækinu. Um er að ræða listrænan gjörning en hann hefur undanfarið ferðast víða og sett sinn svip á náttúruna, eins og hann orðar það. Gjörninginn kallar hann „Pink state“ og segir hann í samtali við Vísi að með þessu sé hann að gera landslag að eins konar málverki.

Sigurður Másson, starfsmaður á Geysissvæðinu, segir að Strokkur sé nú farinn að gjósa eðlilega. Rauðan blæ sé þó enn að sjá í frostinu „Ég veit ekki til þess að svona hafi nokkurn tímann gerst og þetta kom mér vissulega á óvart í morgun,“ segir hann.

Garðar Eiríksson, talsmaður Landeigendafélags Geysis, segist harma atvikið. Listamaðurinn hafi ekki einungis sett sjálfan sig í hættu heldur sé hann einnig að vanvirða náttúruperlur Íslands. „Hann gerir þetta án nokkurs samráðs og heimildar og við hörmum þessa forheimsku. Hann fer þangað inn fyrir, þarna er sjóðandi vatn og getur verið stór hættulegt. Hann virðir hvorki boð né bönn og sýnir það að það er ekki hægt að hafa þessar perlur eftirlitslausar,“ segir Garðar.

Myndskeið af uppátækinu má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.