Innlent

LÖKE-málið: Ríkissaksóknari áfrýjar sýknudómi til Hæstaréttar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögmaður Gunnars segist ekki eiga von á öðru en að ákæruvaldið geri sömu kröfur fyrir Hæstarétti og í héraði.
Lögmaður Gunnars segist ekki eiga von á öðru en að ákæruvaldið geri sömu kröfur fyrir Hæstarétti og í héraði. Vísir/GVA
Ríkissaksóknari hyggst áfrýja sýknudómi yfir lögreglumanninum Gunnari Scheving Thorsteinssyni til Hæstaréttar. Kjarninn greindi fyrst frá málinu en Garðar Steinn Ólafsson, lögmaður Gunnars, staðfestir þetta í samtali við Vísi.

Gunnar var ákærður fyrir að miðla upplýsingum sem áttu að fara leynt til þriðja aðila. Upphaflega var hann einnig ákærður fyrir að hafa flett upp nöfnum 45 kvenna í upplýsingakerfi lögreglunnar LÖKE, án þess að þær uppflettingar tengdust starfi hans. Sá ákæruliður var hins vegar felldur niður þar sem ekki var talið sannað að Gunnar hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi.

Eftir stóð síðari ákæruliðurinn sem Gunnar var sýknaður af í mars síðastliðnum og hóf hann störf hjá lögreglunni á ný skömmu síðar.

Lögmaður Gunnars segist ekki eiga von á öðru en að ákæruvaldið geri sömu kröfur fyrir Hæstarétti og í héraði, það er að skjólstæðingur hans verði sakfelldur en refsingu frestað og að málskostnaður dæmist á ríkissjóð.

Aðspurður hvers vegna hann telji að ríkissaksóknari ákveði að áfrýja málinu segir Garðar:

„Ég get ekki ímyndað mér neina lögfræðilega skýringu á því hvers vegna þessu er áfrýjað. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvernig þetta mál er frábrugðið málum þar sem ríkissaksóknari hefur fengið upplýsingar um það að starfsmenn lögreglu eða ríkissaksóknara hafi gerst sekir um að deila upplýsingum sem bundnar eru þagnarskyldu en ekki verið sóttir til saka. Hvar eru þessir auknu verndarhagsmunir í þessu máli?“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×