Reykjavíkurborg, Knattspyrnufélagið Valur og Valsmenn hf. skrifuðu í gær undir samning við verktaka og er miðað við að framkvæmdir hefjist á mánudag. Friðrik Pálsson, annar formanna Hjartans í Vatnsmýri, segir að með þessu sé brotið alvarlega gegn því samkomulagsferli sem var í gangi.
„Ég trúi því að það sé hægt að ná samkomulagi,“ segir Friðrik. Reynt hafi verið að benda Valsmönnum á að koma mætti öllu þeirra byggingarmagni fyrir á Hlíðarendasvæðinu án þess að þurfa að skerða flugbrautina. Reynt hafi verið að hafa áhrif á borgina.
„Það er í gangi nefnd, Rögnunefndin svokallaða, sem á að reyna að finna sáttaflöt í þessu máli, finna nýjar leiðir. Okkur finnst að það sé í raun verið að brjóta allar þessar brýr með þessari ákvörðun og það er mjög alvarlegt skref,“ segir Friðrik.
Samtökin Hjartað í Vatnsmýri, sem fengu 70 þúsund undirskriftir landsmanna til stuðnings flugvellinum, brugðust við í dag með áskorun til Alþingis og innanríkisráðherra.

Friðrik telur lagalega stöðu borgarinnar í málinu mjög veika og dregur mjög í efa þann lagalega rétt sem borgin telji sig hafa. Þau samkomulög sem borgin byggi þetta á séu mjög veik. Þá beri borgin jafnframt gríðarlega ábyrgð gagnvart þjóðinni allri, sem höfuðborg allra landsmanna. Því megi borgarfulltrúar ekki gleyma.
Þá hafnar Friðrik því að Valsmenn hf. geti vísað fjárhagslegri ábyrgð á aðra. Þeir hafi fyrir löngu verið komnir í milljarðaskuldir. Þeir ætli nú að láta þessa hagsmuni leysa úr sínum skuldavanda.
„Ég sé ekki að þjóðin eigi að bera ábyrgð á því. Þeir verða sjálfir að leysa úr því.“