Innlent

Vilborg aftur á Everest: Þurfti áfallahjálp eftir slysið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vilborg leggur af stað í næstu viku.
Vilborg leggur af stað í næstu viku. vísir/aðsend/getty
„Já, það er framundan stórt og mikið ferðalag,“ segir Vilborg Arna Gissurardóttir í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun. Vilborg ætlar að gera aðra tilraun til að klífa Everest en hún varð að snúa við á síðasta ári þegar snjóflóð féll í fjallinu með þeim afleiðingum að fjöldi manns lét lífið.

„Ég fór í raun af stað á sama tíma fyrir ári síðan og náði aðeins upp í grunnbúðir, komst aldrei á fjallið sjálft. Þegar við vorum á fimmta degi fellur einskonar ísflóð sem verður til þess að sextán manns láta lífið. Í kjölfarið er hætt við alla leiðangra og næstum því allir koma heim.“

Slysið átti sér stað þann 18. apríl á síðasta ári þegar Vilborg var stödd í hlíðum Everest en snjóflóðið féll  skammt frá grunnbúðunum. Um er að ræða eitt mannskæðasta slys sem gerst hefur á fjallinu.

„Ég viðurkenni það alveg að þetta er öðruvísi en í fyrra. Í fyrra var maður bara spenntur og á leiðinni að upplifa drauminn sinn. Slysið á síðasta ári var einfaldlega mikið áfall og manni leið mjög illa. Ég átti erfitt með að klífa fjöll hér í kringum Reykjavík og fannst óþægilegt að fara upp Esjuna. Ég var í raun bara meidd og þurfti t.d. að snúa við þegar ég ætlaði einn daginn upp Eyjafjallajökul. Íþróttamenn lenda stundum í þessu þegar þeir verða fyrir áfalli upplifa þeir meiðsli sem tengjast beint við það andlega áfall sem þeir urðu fyrir.“

Vilborg er að leggja af stað á Everest.
Vilborg segist hafa fengið áfallahjálp og mikla aðstoð frá sjúkraþjálfara.

„Ég leitaði mér aðstoðar nokkuð snemma, nokkrum vikum eftir að ég kom heim og það skipti mig gríðarlega miklu máli og hjálpaði mér mikið. Þegar maður upplifir svona stóra hluti, þá veit maður ekki alveg hvað maður á að gera við það,“ segir Vilborg sem ákvað fljótlega að sigrast á hræðsluna og kleif sjötta hæsta fjall veraldar Cho Oyu stuttu síðar.

„Það var mjög stór sigur fyrir mig. Þá var ég fyrsta og eina konan heiminum sem hafði gengið ein á pól og hefur klifið 8000 metra tind ein.“

Ingólfur Ragnar Axelsson hefur sett stefnuna á ný á topp Everest-fjallsins ári eftir mannskæðasta slys í sögu fjallsins. Ingólfur hélt til Nepals í byrjun mars og mun hann hefja ferð sína á tindinn þann 5. apríl næstkomandi.

Sjá einnig; Ingólfur reynir aftur við Everest: „Maður verður að klára þetta“

Vilborg starfar í raun sem fjallgöngumaður.

„Það eru þrjú ár síðan ég vann 9-5 vinnu. Ég er að selja fyrirlestrana mína, gefið út bækur, selja ferðir og það hefur svona verið mín atvinna. Maður kemst samt aldrei af stað í svona stóra leiðangra nema vera með gott bakland og ég hef unnið með VÍS, Íslandsbanka, 66 gráður norður og HL adventure og ég kæmist aldrei neitt án þeirra.“

Vilborg leggur af stað í næstu viku og kemur aftur til Íslands í júní. 


Tengdar fréttir

Án súrefnis á sjötta hæsta tindinn

Vilborg Arna Gissurardóttir og vinur hennar Atli Pálsson hefja á miðvikudaginn leiðangur upp fjallið Cho You í Tíbet, sjötta hæsta fjall jarðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×