Innlent

Flugvélar vagga við Leifsstöð: „Fólk að verða sjóveikt á biðinni úti á braut“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd tekin úr flugvél easyJet á Keflavíkurflugvelli á dögunum.
Mynd tekin úr flugvél easyJet á Keflavíkurflugvelli á dögunum. Vísir/Dóróthe
„Ísland heilsar með vaggi og veltu, of hvasst til að leggja að flugstöð og fólk að verða sjóveikt á biðinni úti á braut,“ segir blaðamaðurinn og stjórnmálafræðineminn Andri Yrkill Valsson sem situr þessa stundina fastur um borð flugvélar Icelandair á Keflavíkurflugvelli.

Andri Yrkill er á heimleið eftir námsferð til Bandaríkjanna ásamt nemendum í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Vélar Icelandair frá Toronto, Denver, New York og Boston lentu um sjöleytið í morgun en enn hefur ekki tekist að opna farþegum leið inn í flugstöðvarbygginguna. Hjálmar Gíslason, stofnandi og framkvæmdastjóri DataMarket, er sömuleiðis um borð í einni Ameríkuvélanna.

„Þetta er nýtt. Það er svo mikið rok að landgöngubrýrnar virka ekki. Sitjum því úti á flugbraut og bíðum eftir að það lægi.“

Reiknað er með því að vindasamt verði framan af degi á landinu en lægi í framhaldinu.

Uppfært klukkan 11:05

Farþegar í vélunum sátu á vellinum í um tvær klukkustundir áður en hægt var að tengja landgangana um níuleytið í morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×