Innlent

Sigríður býður sig fram gegn Árna Páli

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, býður sig fram til formennsku í Samfylkingunni gegn Árna Páli Árnasyni. Sigríður Ingibjörg staðfesti þetta í samtali við Vísi nú á sjöunda tímanum í kvöld.

Landsfundur Samfylkingarinnar byrjar á morgun og hefst kosning formanns klukkan hálfsex og stendur yfir í klukkutíma. Niðurstöður formannskjörsins verða síðan kynntar klukkan sjö.

Ekki er nema um tvö ár síðan harðar deilur komu innan Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir forval sem fór fram vegna röðunar á lista fyrir Alþingiskosningar. Eins og Eyjan greindi frá á þeim tíma tók kjörstjórn Samfylkingarinnar í Reykjavík þá út fjölmarga nýja félaga í Jafnaðarmannafélaginu Rósinni af kjörskrá eftir að Sigríður Ingibjörg og Skúli Helgason kærðu 350 félaga á kjörskrá til kjörstjórnar. 

Á þeim tíma atti Sigríður Ingibjörg kappi við Össur Skarphéðinsson og Valgerði Bjarnadóttur um oddvitasætið í flokksvalinu. Samkvæmt heimildum Vísis eimir enn eftir af þeim ágreiningi sem var uppi á þeim tíma. Getur Árni Páll því vænst stuðnings Össurar á landsfundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×