Innlent

"Er verið að reyna að hlífa mönnum?“

Starfshópur um gerð svokallaðra griðareglna í skattamálum skilaði fjármála- og efnahagsráðherra í gær drögum að frumvarpi til laga. Hópurinn gerir tillögu um að þeir einstaklingar sem hafa skotið eignum undan skatti, geti frá 1. júlí næstkomandi og út júní á næsta ári, skilað skattaundanskotum sínum. Geri þeir það munu þeir ekki þurfa að sæta refsingu en refsing fyrir skattalagabrot getur varðað allt að 6 ára fangelsi. Fjármálaráðherra hefur ákveðið að nú verði frumvarpið fullunnið og kynnt í ríkisstjórn við fyrsta tækifæri

„Þessar tillögur vekja auðvitað mjög margar siðferðilegar spurningar. Af hverju á annað að gilda um menn sem misfara með yfirlögðu ráði með fé eins og í þessum tilvikum með skattsvikum sem hafa kannski staðið árum saman. Heldur en einstaklinga sem að gerast sekir um einhver auðgunarbrot og eiga enga leið til að koma til baka og biðjast afsökunar og losna undan refsingu,“ segir Árni Páll.

Skattrannsóknarstjóri á nú í viðræðum við erlendan aðila um kaup á gögnum sem eiga að sýna skattaundanskot Íslendinga í gegnum fyrirtæki erlendis. Árni Páll telur rétt að fyrst verði sett lög sem heimili skattrannsóknarstjóra að nota slík gögn til þess að upplýsa um skattsvik.

„Með það í höndunum höfum við öll tæki og allar leiðir til þess að ná utan um þessi skattsvik. Það finnst mér að ætti að vera fyrsta skrefið. Ekki að bjóða grið ef við höfum í hendi okkar að fá nöfn þeirra sem hafa verið að svíkja. Mér finnst eiginlega vera að reyna að finna leiðir til að hlífa mönnum,“ segir Árni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×