Innlent

Varað við versnandi veðri

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/pjetur
Varað er við versnandi veðri suðvestanlands í nótt með snjókomu. Reikna má með 15-20 metrum á sekúndu á Reykjanesbraut á milli klukkan fjögur og sjö í fyrramálið, eins og á Hellisheiði. Þá rofar þó heldur til um morguninn. Áfram skafrenningur. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Á Kjalarnesi verður byljótt og hviður þar 35-45 metrar á sekúndu frá því snemma í fyrramálið og fram undir hádegi. Mest verður veðurhæðin með suðurströndinni. Undir Eyjaföllum og í Mýrdal er spáð ofsaveðri í fyrramálið, meðalvindur 20-30 m/s snarpar hviður og kafaldsbylur. Eins um tíma í Fljótshlíð og nærri Hvolsvelli. Þá verður mjög versnandi í fyrramálið á Skeiðarársandi og í Öræfasveit þar sem saman mun fara skafrenningur, snjókoma og sandbylur.

Færð og aðstæður

Það er hálka á Hellisheiði en hálkublettir á Sandskeiði, í Þrengslum, á Reykjanesbraut og á Suðurnesjum. Hálka eða hálkublettir eru á nokkrum köflum á Suðurlandi, einkum í uppsveitum.

Hálka eða hálkublettir eru allvíða á Vesturlandi. Ófært er á Fróðárheiði.

Á Vestfjörðum er víðast hálka eða snjóþekja og skafrenningur. Snjóþekja og skafrenningur á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldar. Ófært er á Kleifarheiði. Hálkublettir, hálka eða snjóþekja er á flestum vegum á Norðurlandi og éljagangur á norðausturhorni landsins.

Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir á vegum en þæfingsfærð og skafrenningur á Vatnsskarði eystra. Greiðfært er að mestu með suðausturströndinni.

Veðurvefur Vísis




Fleiri fréttir

Sjá meira


×