Fótbolti

Zlatan: París ætti að skipta Eiffelturninum út fyrir styttu af mér

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan með vax-Zlatan.
Zlatan með vax-Zlatan. vísir/getty
Grevin vaxmyndasafnið í París afhjúpaði styttu af sænska framherjanum Zlatan Ibrahimovic í gær, en Zlatan spilar með Paris Saint-Germain í frönsku 1. deildinni.

Hann er aðeins annar erlendi leikmaðurinn á eftir Pelé sem er gerður ódauðlegur með vaxmynd í safninu fræga og Svíinn var ánægður með útkomuna.

„Tilfinningin er ótrúleg að fá styttu af sér í Museé Grevin,“ sagði Zlatan eftir afjúpunina.

„Styttan lítur út fyrir að vera mjög einbeitt alveg eins og ég er á vellinum. Ég get bara verið þakklátur fyrir það frábæra starf sem unnið hefur verið. Ég er stoltur af þessari viðurkenningu, sérstaklega sem Svíi.“

„Hvað er næsta skref? Ég veit það ekki. Kannski ætti París að skipta út Eiffelturninum fyrir styttu af mér,“ sagði Zlatan léttur að lokum.

Zlatan hefur verið frábær fyrir PSG síðan hann kom til liðsins frá AC Milan árið 2012. Með hann sem sinn besta mann hefur liðið unnið frönsku deildina tvö ár í röð.

Sjálfur hefur Svíinn skorað 16 mörk í öllum keppnum á tímabilinu í 23 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×