Innlent

Ásakanir um frændhygli: „Rakalaus þvættingur“

Höskuldur Kári Schram skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er tilbúinn að veita embætti skattrannsóknarstjóra aukafjárheimild svo hægt sé að festa kaup á gögnum um skattaundanskot. Gögnin kosta um 150 milljónir en Bjarni vísar á bug ásökunum um viljaleysi og frændhygli varðandi kaupin og segist hafa verið full óþolinmóður í gagnrýni sinni á skattrannsóknarstjóra. 

Íslenskum stjórnvöldum var boðið að kaupa gögnin í aprílmánuði í fyrra en um að ræða lista með nöfnum rúmlega fjögur hundruð Íslendinga og eignir þeirra í erlendum skattaskjólum. Málið hefur verið til skoðunar rúma níu mánuði og hefur Bjarni gagnrýnt skattrannsóknarstjóra fyrir seinagang. 

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri hefur ekki gefið færi á viðtali síðustu daga þrátt fyrir ítrekaðar óskir fréttastofu. Í morgun sendi hún hins vegar frá sér yfirlýsingu þar sem hún hafnar fullyrðingum fjármálaráðherra um að embættið hafi verið að draga lappirnar í málinu.

Í yfirlýsingunni kemur  fram að skattrannsóknarstjóri hafi tvisvar greint fjármálaráðuneytinu frá stöðu málsins. Fyrst með óformlegum tölvupósti í lok desembermánaðar og svo aftur með formlegu bréfi þann 27. janúar.

Eins og fram hefur komið hefur ráðuneytið verið tilbúið að skilyrða greiðslur til seljanda við hlutfall af innheimtu en seljandinn hefur hins vegar hafnað þessu tilboði. Skattrannsóknarstjóri óskar í bréfi sínu eftir afstöðu ráðuneytisins til þessa og hvort það sé tilbúið að breyta upprunalegum skilyrðum.

Gögnin kosta um 150 milljónir en í yfirlýsingu sem fjármálaráðherra sendi frá sér nú síðdegis kemur fram að hann sé tilbúinn að greiða fyrir málinu. Bjarni segist ennfremur tilbúinn að úthluta sérstökum fjármunum til kaupanna. 

Sjá einnig: Efast um vilja Bjarna til kaupa á skattaskjölum

„Það þarf enginn að efast um það að þessi ríkisstjórn sem situr núna hún mun ekki veita þeim sem ekki ætla að axla ábyrgð með öðrum og standa skil á sínu hún mun ekki veita þeim neitt skjól,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Bjarni segist hafa verið full óþolinmóður þegar hann gagnrýndi skattrannsóknarstjóra.

„Það getur vel verið að ég sé of óþolinmóður en mér finnst bara þetta mál sem á rætur sínar að rekja til aprílmánaðar á síðasta ári hafa þegar allt er samantekið tekið of langan tíma.“

Hann vísar hins vegar á bug ásökunum um frændhygli.

„Þetta er lítið sýnishorn af því hversu lágt menn eru tilbúnir að leggjast til þess að vinna skammtíma sigra í orrahríð stjórnmálanna. Þetta er auðvitað rakalaus þvættingur og ekkert annað,“ segir Bjarni. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×