Fótbolti

Ronaldinho að feta í fótspor Rivaldo

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ronaldinho er líklega á leið til Angóla.
Ronaldinho er líklega á leið til Angóla. Vísir/Getty
Ronaldinho, sem var á sínum tíma tvisvar sinnum kosinn besti leikmaður heims, er á leið til Angóla miðað við nýjustu fréttir. Kabuscorp er á eftir þessum ótrúlega leikmanni.

Þessi 34 ára gamli leikmaður sagði upp samningi sínum við mexíkóska liðið, Queretaro, á dögunum. Hann hafði spilað þar síðan í september.

„Þetta er líklegt. Við erum í samningaviðræðum og Ronaldo hefur sagt upp samningi sínum við sitt fyrrum lið. Hann gæti komið í júní,” sagði Benedict Kangbama, forseti Kabuscorp, við ríkissjónvarpið í Angóla.

Brasilíska goðsögnin, Rivaldo, spilaði með Kabuscorp árið 2012 og er því Ronaldinho önnur brasilíska goðsögnin sem gengur í raðir liðsins.

„Þið getið spurt mig afhverju ég valdi Ronaldinho - það er af því ég vildi gæði í mitt lið.”

Ronaldinho vann meðal annars tvo spænska titla og Meistaradeildina með Barcelona og vann Seriu A með AC Milan. Hann var einnig í lykilhlutverki í mögnuðu liði Brassa á HM 2002 þar sem þeir sigruðu mótið eftir sigur gegn Þjóðverjum í úrslitaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×