Innlent

Forsætisráðherra telur „ekkert sérstakt“ koma fram í símtalinu fræga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Davíð Oddsson, Geir H. Haarde og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Davíð Oddsson, Geir H. Haarde og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Vísir
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir að „ekkert sérstakt“ sé að finna í frægu símtali Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra, og Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, um 500 milljóna evra lán sem Seðlabankinn veitti Kaupþingi korter í hrun. Þetta hafi hann heyrt frá þeim sem hlustað hafa á símtal Davíðs og Geirs.

Lengi hefur verið kallað eftir því að símtalið verði gert opinbert svo varpa megi betra ljósi á hvers vegna nærri gjaldeyrisvaraforði þjóðarinnar var lánaður Kaupþingi.

Forsætisráðherra var í Bítinu á Bylgjunni í morgun og var þar spurður hvort hann hefði sjálfur heyrt símtalið:

„Nei, ég hef ekki heyrt það sjálfur en eftir því sem mér skilst þá leiðir það ekkert sérstakt í ljós um grundvöll þessarar ákvörðunar umfram það sem liggur fyrir; að þarna voru bankar víða um heim að falla eins og domínó-kubbar. Rétt eins og í öðrum löndum þá er ákveðið að veita lán til þess að halda bankanum gangandi. Ég geri ekki ráð fyrir að í þessu samtali komi neitt sérstakt fram sem réttlæti það umfram bara að þetta er það sem var að gerast,“ svaraði Sigmundur.

Hann útilokaði þó ekki að símtalið yrði gert opinbert ef til stæði til dæmis að rannsaka hvort að íslenska ríkið ætti rétt á skaðabótum vegna lánsins.

„Það hefur ekki staðið á því að koma með rannsókn á þessu, ég tala nú ekki um ef það væri krafa ríkisins um skaðabætur, að menn myndu þá hafa aðgang að þessu eins og öðrum upplýsingum um málið.“

Hlusta má viðtalið við Sigmund í heild sinni hér að neðan en hann ræddi meðal annars um Víglundarskýrsluna svokölluðu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×