Innlent

Flughált í uppsveitum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Óveður er á Mikladal og Hálfdán en þar er einnig þæfingsfærð.
Óveður er á Mikladal og Hálfdán en þar er einnig þæfingsfærð. vísir/gva
Á Suðurlandi er hálka á vegum og víða flughált í uppsveitum. Hálkublettir eru á Sandskeiði og hálka á Hellisheiði og í Þrengslum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Hálka er á flestum leiðum á Vesturlandi og flughálka á nokkrum leiðum í uppsveitum Borgarfjarðar. Þungfært og skafrenningur er á Bröttubrekku.

Á Vestfjörðum víða hálka eða snjóþekja en flughálka í Ísafjarðardjúpi og í Kollafirði á Ströndum. Hálka og óveður er á Ennishálsi, ófært og stórhríð á Þröskuldum og þungfært á Steingrímsfjarðarheiði. Óveður er á Mikladal og Hálfdán en þar er einnig þæfingsfærð.

Það er hálka eða snjóþekja á Norðurlandi en þungfært og skafrenningur á Vatnsskarði og ófært og óveður á Öxnadalsheiði. Flughálka er frá Sauðárkrók að Ketilási í Fljótum. Þæfingsfærð er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og í Hófaskarði.

Á  Austurlandi er víðast hvar hálka eða snjóþekja en hálka og hálkublettir eru með suðausturströndinni.

Síðustu daga hefur hópur af hreindýrum verið við veg á milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar og eru vegfarendur beðnir að sýna aðgát.

Horfur um allt landið næsta sólarhringinn

Suðvestan 13-20 m/s og þurrt að kalla, en hægari S- og A-lands. Hvassara í vindstrengjum N-til, allt að 23 m/s. Lítilsháttar slydda eða rigning undir kvöld, en bjartviðri NA-lands. Rigning með köflum um landið norðvestanvert á morgun, annars úrkomulítið. Hiti víða 0 til 5 stig, en hlýnar lítillega með A-ströndinni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×