Innlent

Rannsókn Persónuverndar tefst: „Stjórnin taldi málið þurfa nánari skoðunar við“

Birgir Olgeirsson. skrifar
Gísli Freyr Valdórsson og Sigríður Björk Guðjónsdóttir.
Gísli Freyr Valdórsson og Sigríður Björk Guðjónsdóttir.
„Við munum leitast við að klára málið eins fljótt og við getum,“ segir Þórður Sveinsson, forstöðumaður lögfræðisviðs Persónuverndar, um athugun á samskiptum Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur og Gísla Freys Valdórssonar vegna upplýsinga sem Sigríður Björk, þá lögreglustjóri á Suðurnesjum, veitti Gísla Frey, þá aðstoðarmanni innanríkisráðherra, um hælisleitanda í nóvember árið 2013.

Meðal þeirra gagna sem fóru á milli þeirra er greinargerð embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum um hælisleitandann Tony Omos sem Sigríður Björk segist hafa sent Gísla Frey í tölvupósti þann 20. nóvember árið 2013 en samdægurs birtust í fjölmiðlum upplýsingar um Tony Omos og aðila tengdum honum sem Gísli Freyr var dæmdur fyrir að leka.

Fyrir helgi sagði Þórður að niðurstöðu væri að vænta vegna athugunar Persónuverndar innan tíðar en nú er ljóst að úr því verður ekki. „Við reynum að klára öll mál eins fljótt og við getum en stjórn taldi málið þurfa nánari skoðunar við. Málið er því enn á þessu rannsóknarstigi og í skoðun hjá okkur,“ segir Þórður sem gat ekki svarað því hvort einhverjar nýjar upplýsingar hefðu borist Persónuvernd sem leiddu til þess að athugunin tafðist.

Þá vísaði hann í orð Bjargar Thorarensen, stjórnarformanns Persónuverndar, á vef Kjarnans en þar sagði hún að öll umbeðin gögn vegna málsins hefðu skilað sér til stofnunarinnar en á meðal þeirra gagna sem Persónuvernd bað um var tölvupóstur Sigríðar Bjarkar til Gísla Freys.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×