Innlent

Flughálka víða um landið

Stefán Árni Pálsson skrifar
vísir/ingó herbertsson
Á Suðurlandi er þjóðvegur 1 auður en víða er nokkur hálka, jafnvel flughálka á öðrum vegum, s.s. í Grafningi, á Lyngdalsheiði og víðar í uppsveitum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Mikið hefur tekið upp á Vesturlandi en þó er sumstaðar nokkur hálka og varað er við flughálku á Fróðárheiði og Svínadal - og alveg sérstaklega á Holtavörðuheiði þar sem einnig er óveður.

Flughált er nokkuð víða á Vestfjörðum, m.a. austan Klettsháls, á Kleifaheiði, Hálfdáni, Þröskuldum og á Steingrímsfjarðarheiði þar sem einnig er stormur. Eins er flughált á kafla í Djúpinu.

Vegir eru óðum að verða auðir á láglendi á Norðurlandi en varað er við flughálku og óveðri á Öxnadalsheiði. Flughált er einnig á austanverðu Þverárfjalli og í Dalsmynni.

Það er ófært yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi  og beðið með mokstur vegna veðurs.

Víða er flughált á vegum á Héraði en á Fjarðarheiði, Fagradal og Oddsskarði eru aðeins hálkublettir. Það er hálka - og flughált á kafla - úr Fáskrúðsfirði í Djúpavog en þaðan eru hálkublettir eða alveg autt suður um.

Undanfarna daga hefur hópur af hreindýrum verið við veg á milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar og eru vegfarendur beðnir að sýna aðgát.

Mildir vindar blása með SV-átt á landinu og snjó og ís leysir jafnt á láglendi sem og helstu fjallvegum.  Þessu veðurlagi fylgir stormur á heiðum um norðvestan- og norðanvert landið í allan dag og byljóttur vindur sums staðar á láglendi.  Þannig er útlit fyrir vindhviður 30-40 m/s á Siglufjarðarvegi í Fljótum og á Ólafsfjarðarvegi á Árskógsströnd og í Múlanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×