Erlent

Fjölmenn mótmæli í Aþenu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þúsundir komu saman í dag fyrir utan þinghúsið á Syntagma-torgi í Aþenu í dag til að mótmæla aðhaldsaðgerðum stjórnvalda. Þá voru jafnframt haldnir fundir til stuðnings ríkisstjórn Alexis Tsipras forsætisráðherra og tilraunum hans til að semja um skuldir þjóðarbúsins.

Mótmælin voru afar fjölmenn en fóru friðsamlega fram. Skipuleggendur mótmælanna segja að með því að safnast saman lýsi fólk yfir stuðningi við tilraunir ríkisstjórnarinnar til að semja um skuldir þjóðarbúsins og til að mótmæla ákvörðun evrópska seðlabankans sem í dag hætti við að veita grískum bönkum lausafjárfyrirgreiðslu gegn veðum í skuldabréfum ríkisins. Þá eru fyrirhugaðir stuðnings- og mótmælafundir víða um Grikkland á næstu dögum.

Forsætisráðherra Grikkja ásamt fjármálaráðherra funduðu í dag með stjórnvöldum í Þýskalandi í þeirri von um að hægt væri að semja um skuldirnar. Fundurinn bar þó ekki árangur og var slitið síðdegis í dag. Yanis Varoufakis sagði orðrétt að eins og málið horfi við honum þá hefðu deiluaðilar ekki einu sinni verið sammála um að vera ósammála Þá sagði forsætisráðherrann á gríska þinginu að hann myndi standa við öll þau loforð sem gefin voru í kosningabaráttunni og bætti við að tími ógna og fjárkúgana væri liðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×