Innlent

Von á stormi um allt land

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vindur 18-25 m/s síðdegis, hvassast norðan til.
Vindur 18-25 m/s síðdegis, hvassast norðan til. Vísir/Róbert Reynisson
Búast má við stormi um allt land í dag og gæti vindhraði farið yfir tuttugu metra á sekúndu.

Vaxandi suðvestan og vestan átt um morguninn með slyddu eða snjókomu og síðar éljum, fyrst vestantil. Vindur 18-25 m/s síðdegis, hvassast norðan lands.

Yfirleitt úrkomulítið á austurlandi. Dregur úr vindi í kvöld og nótt. Kólnandi veður og hiti um eða undir frostmarki síðdegis. Suðvestan 10-15 á morgun. Dálítil slydda eða rigning með köflum um landið vestanvert, en léttir heldur til fyrir austan og hlýnar aftur í veðri.

Á Suðurlandi er þjóðvegur 1 auður en víða er nokkur hálka eða jafnvel flughálka á  sveitavegum. Þoka er á Hellisheiði.

Mikið hefur tekið upp á Vesturlandi en þó eru sumstaðar hálkublettir, einkum á fjallvegum. Það er hvasst á Holtavörðuheiði og hálkublettir.

Á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir og hvasst á fjallvegum.Vegir eru óðum að verða auðir á Norðurlandi en hálkublettir eru á Öxnadalsheiði. Hálka er á Möðrudalsöræfum.

Á helstu fjallvegum á Austurlandi eru aðeins hálkublettir. Það er hálka úr Fáskrúðsfirði í Djúpavog en þaðan eru ýmist hálkublettir eða alveg autt suður um.

Undanfarna daga hefur hópur af hreindýrum verið við veg á milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar og eru vegfarendur beðnir að sýna aðgát.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×