Innlent

Bílar skauta á vegum eins og beljur á svelli

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Mynd/Jóhanna
„Það eru ekki endilega holurnar, heldur er það efnið sem er í vegunum, það er búið að hefla svo oft og aldrei sett nein möl eða þess háttar á móti, þannig að þetta er bara ein drulla, sandur og mold.“ segir Jóhanna Sigurðardóttir, bóndi á Hallgeirseyjarhjáleigu í Landeyjum.

Hún er búin að fá sig fullsadda á vegum í sveitinni. Aðspurð um ástand veganna og hvort þeir væru almennt ökuhæfir segir hún:

„Ef maður mætir stórum bílum þá verður maður að vara sig af því að þeir geta ekki hægt mikið á sér því þá festa þeir sig, þetta er búið að vera mjög lélegt þessi 11 ár sem fjölskylda mína hefur búið í Landeyjum“, segir Jóhanna og bætti því við að núna væri verið að reyna að hefla veginn en það hefði engan tilgang. „Maður skautar bara á bílnum eins og belja á svelli,“ segir hún.

Jóhanna tók meðfylgjandi myndir af einum veginum í Landeyjunum og þá má glöggt sjá hversu hræðilegt ástandið er. „Svona eru vegirnir meira og minna allir í sveitinni, ömurlegir,“ segir Jóhanna.

Hún hvetur Rangárþing eystra og Vegagerðina að gera eitthvað í málunum þannig að það sé hægt að aka um veginn án þess að vera í stórhættu.

Mynd/Jóhanna



Fleiri fréttir

Sjá meira


×