Innlent

Vara vegfarendur við vatnavöxtum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Enn fer vindstyrkur hækkandi og verður hann í hámarki á milli sex og tíu í kvöld. Á fjallvegum er mjög hvasst og sviptivindar á láglendi geta orðið allt að 35 til 45 m/s á Snæfellsnesi, á Vestfjörðum og á Norðurlandi.

Þá er hlýtt og mikil úrkoma víða og hláka um landið allt. Því er hætta á vatnavöxtum.

Hér að neðan má sjá tilkynningu Vegagerðarinnar um færð á vegum á landinu.

Vegir á Suður- og Vesturlandi eru að mestu greiðfærir þó er eitthvað um hálku eða hálkubletti í uppsveitum Suðurlands. Óveður  er á norðanverðu Snæfellsnesi, Bröttubrekku og á Laxárdalsheiði.

Á Vestfjörðum eru vegir að verða auðir en krap er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum þar sem einnig er óveður. Óveður er einnig á Súðavíkurhlíð, Ennishálsi og á Mikladal og Hálfdán en þar er líka krapi á vegi.

Vegir eru víða greiðfærir á Norðurlandi en þó er eitthvað um hálkubletti. Óveður á Siglufjarðarvegi, Öxnadalsheiði, á Mývatns- og Möðrudalsöræfum, Hófaskarði og á Sandvíkurheiði.

Á Austurlandi er víða orðið greiðfært en þó eru enn hálkublettir á stöku stað.  Greiðfært er einnig  að mestu með suðausturströndinni en óveður er á Hvalnesi.

Undanfarna daga hefur hópur af hreindýrum verið við veg á milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar og eru vegfarendur beðnir að sýna aðgát.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×